Innlent

Nýr ritstjóri stúdentablaðsins: Spennandi áskorun

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Áslaug Baldursdóttir
Áslaug Baldursdóttir
„Ég er mjög sátt með þetta og hlakka til að takast á við þetta verkefni," segir Áslaug Baldursdóttir, nýr ritstjóri Stúdentablaðsins. Stjórn Stúdentaráðs Háskóla Íslands hefur ráðið Áslaugu til að gegna þeim starfa skólaárið 2009 til 2010.

Aðspurð segist Áslaug hvergi bangin að taka við blaðinu þótt árferðið sé erfitt, en það rekur sig að stórum hluta til á auglýsingum.

„Þetta er bara spennandi, og enn meira spennandi að þetta sé svolítil áskorun," segir Áslaug.

Hún segir einhverra breytinga að vænta.

„Við munum breyta umbrotinu eitthvað og mál stúdenta verða meira á oddinum. Þá munum við reyna að hafa beinskeyttari umfjöllun um þjóðfélagsmál. Svo er auðvitað ekkert blaðinu óviðkomandi," segir Áslaug.

Hún segir það markmið sitt að blaðið fái meiri lestur og dreifingu og fleiri líti á blaðið sem góðan fjölmiðil.

Áslaug hefur talsverða reynslu af fjölmiðlum og hefur mikið starfað að dagskrárgerð. Til dæmis starfaði hún sem skrifta og var útsendingarstjóri á fréttastofu Stöðvar 2 auk þess sem hún hefur unnið að yfir 20 öðrum frétta- og afþreyingartengdum sjónvarpsþáttum að því er kemur fram í fréttatilkynningu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×