Viðskipti innlent

Heildarlán ÍLS drógust saman um 6% í febrúar

Alls námu heildarútlán Íbúðalánasjóðs rúmlega 3,3 milljörðum króna í febrúar. Þar af voru tæplega 2,3 milljarðar vegna almennra lána og tæpur 1,1 milljarður vegna leiguíbúðalána. Heildarútlán sjóðsins drógust því saman um tæp 6% frá fyrra mánuði. Meðallán almennra lána voru um 10,7 milljónir króna í febrúar sem sambærilegt fyrri mánuð.

Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu sjóðsins. Í febrúar setti félags-og tryggingamálaráðherra tvær reglugerðir um starfsemi Íbúðalánasjóðs sem fela í sér rýmri útlánareglur og fjölgun lánaflokka. Helstu nýmæli felast í nýjum lánaflokki sem heimilar lánveitingar til endurbóta og viðhalds á leiguíbúðum, rýmri heimildum til að veita fötluðum einstaklingum aukalán vegna sérþarfa og heimild til veðlánaflutninga milli leiguíbúða sem eru í eigu sama lántakanda.

Ennfremur segir í skýrslunni að ætla megi að nýr lánaflokkur sem heimilar lánveitingar til endurbóta og viðhalds á leiguíbúðum geti skapað svigrúm til framkvæmda og þar með aukna atvinnu í byggingariðnaði, til dæmis ef sveitarfélög vilja nýta slík lán til viðhalds á leiguíbúðum sínum.

Heildarvelta íbúðabréfa í febrúar nam tæpum 81 milljarði króna sem er aukning um tæp 21% frá fyrra mánuði. Heildarvelta bréfanna nemur 147,5 milljörðum króna það sem af er árinu 2009.

Greiðslur Íbúðalánasjóðs námu um 8,0 milljörðum króna í febrúar og voru afborganir vegna íbúðabréfa stærsti hluti þeirra.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×