Viðskipti innlent

Tokyo-Mitsubitshi bankinn vill viðskiptaupplýsingar úr Kaupþingi

Valur Grettisson skrifar
Kaupþing.
Kaupþing.

Mál bandaríska gjaldþrotadómstólsins gegn Nýja Kaupþingi var þingfest í morgun en málið snýst um aðgang að viðskiptaupplýsingum. Það er Bank of Tokyo-Mitsubitshi sem vill fá aðgang að upplýsingum viðskiptavina Kaupþings sem varða reikninga þeirra.

Ekki er ljóst hvers eðlis upplýsingarnar eru né hverjir eiga í hlut því bankaleynd hvílir yfir þeim. Hitt er þó ljóst að gögnin urðu til í og rétt fyrir október á síðasta ári. Sem sagt í miðju bankahruninu.

Vísir sagði frá málinu fyrr í vikunni en þá kom fram að það er United States Bankruptcy Court sem stefnir Nýja Kaupþingi en bankinn eru vörsluaðili gagnanna dularfullu. Lögmaður Tokyo-Mitsubitshi bankans sagði í Héraðsdómi Reykjavíkur að hann hefði ekki rétt á að tala fyrir gjaldþrotadómstólinn en hann er lögmaður japanska bankans.

Verjendur Nýja Kaupþings neituðu kröfu lögmanns Mitsubitshi bankans sem er Heiðar Örn Stefánsson. Þá var einnig deilt um aðild gamla Kaupþings að málinu en gögnin urðu til þegar hann var enn starfandi og ekki farinn í þrot.

Lögfræðingar deildu um aðild gamla Kaupþings að málinu en Heiðar Örn vitnaði í lagaheimildir þar sem kom fram að réttast væri að stefna vörsluaðila gagnanna.

Kaupþing er nú til gjaldþrotameðferðar í Bandaríkjunum en bankinn átti eignir að andvirði 222 milljóna dollara þar í landi þegar hann fór í þrot.

Úrskurður hvort gamli Kaupþing eigi rétt á aðild að málinu verður kveðinn upp í byrjun næstu viku.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×