Viðskipti innlent

Enn bólar ekkert á framhaldsláninu frá AGS

Núna eru liðin rétt rúmur mánuður síðan Íslandsleiðangri sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) lauk en niðurstaða sendinefndarinnar liggur enn ekki fyrir og af þeim sökum bíður önnur greiðsla láns AGS að upphæð 155 milljónir dollara enn afgreiðslu.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að önnur greiðsla lánsins er háð framvindu efnahagsmála hér á landi og mati sendinefndarinnar á því hvernig gengur að framfylgja þeirri efnahagsáætlun sem AGS og íslensk stjórnvöld samþykktu í nóvember síðastliðnum.

Ekki liggur fyrir hvenær stjórn sjóðsins getur tekið afgreitt lánið en skortur á gögnum tefur afgreiðsluna samkvæmt upplýsingum sem hafa borist frá AGS og íslenskum stjórnvöldum. Beðið er eftir efnahagsreikningum bankanna sem enn liggja ekki fyrir sem og fullnægjandi gögnum um skuldastöðu ríkisins m.a. í tengslum við Icesave deiluna.



Greining bendir á að ekki sé óalgengt að afgreiðsla lána tefjist líkt og raunin er með Ísland en afgreiðsla lána til bæði Lettlands og Úkraínu tafðist einnig nokkuð hjá sjóðnum.

Lánaafgreiðsla til Lettlands hefur frestast vegna ónægs niðurskurðar í ríkisfjármálum og þá frestaðist afgreiðsla láns til Úkraínu vegna mikils óstöðugleika þar í landi og skorts stjórnvalda á að sýna vilja til að framfylgja þeirri efnahagsáætlun sem AGS og stjórnvöld höfðu áður náð samkomulagi um.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×