Viðskipti innlent

Annað hrun á Íslandi ef ekki er sótt um aðild að ESB

Benedikt Jóhannesson ritstjóri Vísbendingar segir í grein í Morgunblaðinu í dag að ef Ísland sæki ekki um aðild að Evrópusambandinu á næstu mánuðum stefni í annað hrun íslenska efnahagskerfisins. Þeir sem hafni nú Evrópusambandsaðild hafi ekki bent á neina aðra leið úr rústum bankahrunsins.

Benedikt segir að fyrir utan fyrirsjáanlegt annað hrun er annað stórt atriði sem sem geri það að verkum að brýnt sé að sækja um aðild að ESB. Margt bendi til að ef Ísland sæki ekki um strax geti liðið áratugur þar til tækifæri gefst að nýju þar sem ESB hyggi nú á að loka fyrir frekari stækkun sambandsins í bili.

Þá bendir Benedikt bendir á að sjávarútvegsstefna ES sé til endurskoðunar. Ef Íslendingar fari í aðildarviðræður nú sé auðveldara fyrir þjóðina að koma sínum sjónarmiðum að hvað varðar sjávarútvegsstefnu ESB.

Þessari endurskoðun á að ljúka árið 2012 og síðan verður málið ekki tekið upp að nýju fyrr en árið 2022. Benedikt segir það ábyrgðarhlut ef þjóðin ætli að missa af þessu tækifæri til þess að hafa áhrif í svo stóru hagsmunamáli hennar.

Benedikt spyr hvað gerist ef þjóðin sæki ekki um aðild að Evrópusambandinu. Hann telur upp sjö atriði sem líkleg svör:

1.Stórfyrirtæki flytja höfuðstöðvar sínar úr landi

2.Útlendingar þora ekki að fjárfesta á Íslandi

3.Fáir vilja lána Íslendingum peninga

4.Þeir sem vilja lána þjóðinni gera það gegn okurvöxtum

5.Atvinnuleysi, vaxtaokur og gjaldþrot verða viðvarandi

6.Þjóðin missir af Evrópulestinni næstu tíu ár

7.Íslendingar verða áfram fátæk þjóð í hafti

„Einu úrræði þjóðarinnar er að taka málið í sínar hendur og krefjast þess að stjórnmálamenn setji málið á dagskrá," segir Benedikt Jóhannesson. „Það geta menn gert með því að undirrita áskorun til stjórnvalda á vefsvæðinu www.sammala.is þar sem þeir taka saman höndum sem eru sammála um að ríkisstjórnin sem tekur við völdum að loknum kosningum...eigi að hafa það eitt af sínum forgangsverkefnum að skilgreina samningsmarkmið og sækja um aðild að Evrópusambandinu."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×