Lífið

Kaiser í þjóðleikhússtjórann

Þrátt fyrir að teljast ágætur kandídat í stöðu Þjóðleikhússtjóra - gerir hann ekkert frekar ráð fyrir því að hreppa stöðuna. fréttablaðið/valli
Þrátt fyrir að teljast ágætur kandídat í stöðu Þjóðleikhússtjóra - gerir hann ekkert frekar ráð fyrir því að hreppa stöðuna. fréttablaðið/valli

„Já, ég hef verið hvattur til þess af mörgum, bæði innan leikhússins sem utan,“ segir Sigurður Kaiser sem ætlar sér að sækja um stöðu þjóðleikhússtjóra.

Menntamálaráðherra auglýsti stöðuna fyrir nokkru lausa til umsóknar en umsóknarfrestur rennur út 26. þessa mánaðar. Skipað er í stöðuna til fimm ára. Tinna Gunnlaugsdóttir, núverandi þjóðleikhússtjóri, hefur þegar lýst yfir vilja til að vera áfram. Þá hefur Kolbrún Halldórsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, verið orðuð við stöðuna en hún komst ekki inn á þing í síðustu alþingiskosningum. Sigurður segir Þjóðleikhúsið flaggskip íslenskrar menningar og sterkt Þjóðleikhús forsendu fyrir því að hér þrífist leiklist.

Fréttablaðið greindi í upphafi viku frá svartri skýrslu um ástand hússins við Hverfisgötu, að því þyrfti að loka ef vel ætti að vera. Tinna hefur reyndar mótmælt því og ýmislegt hefur þegar verið gert sem tíundað var sem ógert í skýrslunni, svo sem vinna við ytra byrði hússins. En Sigurður sér það reyndar ekki sem óyfirstíganlegt vandamál þótt loka þyrfti húsinu um stundarsakir. „Þá má sýna í yfirgefnum banka. Leikhúsið þarf ekki að vera bygging. Ekki veitti til dæmis af að heimsækja landsbyggðina, leikhúsið til fólksins, og mætti þess vegna sýna í frystihúsi eða jafnvel togara. Auðvitað er Þjóðleikhúsið þjóðareign, eitt af fáum stofnunum sem það eru, og menn ættu ekki að þurfa að setja sig í stellingar og fara í sparifötum þangað inn,“ segir Sigurður.

Hann veit ekki um aðra en Tinnu sem ætla að sækja um en hefur þó orðið var við titring í tengslum við stöðuna. „Þetta er ein af æðstu stöðum innan menningarlífs á Íslandi. Nýverið var skipt um stjórnvöld og þau taka ákvörðun um hver fær stöðuna. Og af hverju skyldu þeir sem hafa áhuga á og metnað til að vera leiðandi í íslensku menningarlífi ekki að sækja um?“

Sigurður hlýtur að teljast ágætur kandídat. Hann státar af meistaragráðu í leikhúshönnun frá Bretlandi, kenndi dramatúrgíu í South Bank University, hann hefur starfað í flestum leikhúsum landsins, er stofnandi Vesturports og starfaði þar sem leikhússtjóri auk þess sem hann stýrði Loftkastalanum um hríð. Er þá fátt eitt nefnt af afrekum Sigurðar í íslensku leikhúsi en þrátt fyrir þetta er hann ekkert endilega á því að hann hreppi stöðuna. „Nei, ég geri nú ekki ráð fyrir því. Ég treysti Tinnu mjög vel til að halda þarna áfram. En umræðan er þörf og það er kannski fyrst og fremst þess vegna sem fólk hefur verið að nefna þetta við mig.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.