Viðskipti innlent

Kaupþing hugsanlega í hendur bandarískra vogunarsjóða

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Flest bendir til þess að bandarískir vogunar- og tryggingarsjóðir verði stærstu eigendur Kaupþings í vikulok. Viðræðurnar munu vera á viðkvæmu stigi.

Stefnt er að því að efnahagsreikningur ríkisbankanna liggi fyrir á föstudag. Þá á einnig að vera komið í ljós hvernig bankarnir verði fjármagnaðir og með hvaða hætti kröfuhafar koma að þeim.

Stíf fundahöld með fulltrúum kröfuhafa, fjármálaráðuneytisins, skilanefndum og ráðgjafafyrirtækinu Hawk Point hafa verið í dag og mun vera áframhald á þeim á fimmtudag. Samkvæmt heimildum fréttastofu eru meiri líkur en minni að Kaupþing verði í eigu erlendra kröfuhafa í lok vikunnar.

Kröfuhafahópurinn samanstendur af skuldabréfaeigendum en hópurinn hefur tekið miklum breytingum frá síðasta hausti. Í upphafi voru þetta að mestu Evrópskir bankar og voru þýsku bankarnir áberandi í þeim hópi.

Skuldabréfin hafa þó á undanförnum mánuðum gengið kaupum og sölu og eru bandarískir vogunar- og tryggingarsjóðir nú fyrirferðamestir í hópi kröfuhafa.

Heimildir fréttastofu herma að sá möguleiki sé einnig uppi á borðum að kröfuhafarnir fái hlutdeild í hagnaði bankans og vilyrði til að kaupa hann síðar. Viðræðurnar munu vera á viðkvæmu stigi og vildi Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, lítið tjá sig um málið.

Gylfi segir það hafa marga kosti í för með sér verði Kaupþing í eigu erlendra aðila. Ríkið þyrfti þá að leggja til minna fé í endurreisn bankakerfisins auk þess sem líklegt er að slíkur banki væri í betri tengslum við hið alþjóðlega bankaumhverfi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×