Viðskipti innlent

Spáir því að verðbólgan aukist í þessum mánuði

Gangi spá hagfræðideildar Landsbankans eftir verður 12 mánaða verðbólga 12% í júní og eykst milli mánaða eftir að hafa minnkað fjóra mánuði í röð þar á undan. Verðbólgan í síðasta mánuði mældist 11,6%.

Fjallað er um málið í Hagsjá deildarinnar, Þar segir að í mælingunni nú megi búast við þó nokkrum verðhækkunum í tengslum við skattahækkanir á áfengi og eldsneyti. Einnig má búast við hækkun á innflutningsvörum s.s. matvöru, húsgögnum o.fl. Aftur á móti gerir spáin ráð fyrir hóflegum áhrifum til lækkunar vegna fasteignaliðarins.

Tilkynnt hækkun áfengisverðs um 6-11% hækkar neysluverðsvísitöluna um u.þ.b. 0,25% og á deildin von á að sú hækkun skili sér að mestu í mælingunni nú í júní. Þá má búast við að hækkun á eldsneyti valdi um 0,3-0,4% hækkun á vísitölunni í mánuðinum en um er að ræða hækkun vegna skattabreytinga, gengisáhrifa og hækkunar á heimsmarkaðsverði.

Krónan hefur nú veikst um rúmlega 8% frá því að síðasta verðbólgumæling fór fram um miðjan maí. Að öllum líkindum er óumflýjanlegt að hluti af þeirri veikingarhrinu skili sér inn í innflutningsverðlag og á deildin því von á þó nokkrum hækkunum á flestum innflutningsliðum.

Flest bendir hinsvegar til þess að verðbólga muni haldast áfram að dragast saman þegar líður á árið og gerir spáin ráð fyrir að verðbólga muni fara að mælast í námunda við 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans á fyrri hluta næsta árs.

Spáin um hratt lækkandi verðbólgu byggir á áframhaldandi eftirspurnarslaka og lækkun fasteignaverðs en gengisþróun krónunnar mun svo ráða úrslitum um framhaldið. Núverandi verðbólguspá hagfræðideildar Landsbankans gerir ráð fyrir að krónan sveiflist í námunda við 170-175 krónur á evru út árið 2009.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×