Viðskipti innlent

Áttu ekki greið viðskipti við Seðlabankann

Guðmundur Hauksson forstjóri SPRON.
Guðmundur Hauksson forstjóri SPRON.

Fráfarandi stjórn og forstjóri Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis harmar hvernig yfirtakan á bankanum var kynnt opinberlega af hálfu stjórnvalda í beinni útsendingu. Stjórnendum var ekki gefið færi á því að greina starfsmönnum frá því hvað hafði gerst.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá fráfarandi stjórn og forstjóra SPRON. Þar kemur einnig fram að viðræður við erlenda lánveitendur hafi gengið vel og fyrir lágu drög að samningi þegar Seðlabanki Íslands tilkynnti Fjármálaeftirlitinu að þeir myndu ekki veita SPRON frekari fyrirgreiðslu. Þá segir einnig að fjármálafyrritæki með jafn víðtæka þjónustu og SPRON geti ekki starfað eðlilega nema eiga greið viðskipti við Seðlabanka

Yfirlýsinguna má lesa í heild sinni hér að neðan:

„Stjórn og stjórnendur SPRON hafa unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu sparisjóðsins allt frá því að bankarnir féllu í október.

Fall bankanna hafði gríðarlegir afleiðingar í för með sér fyrir íslenskt efnahagslíf, eignir fyrirtækja og almennings hafa rýrnað og mikill skortur er á lausafé. Þessi atburðir hafa haft alvarleg áhrif á eiginfjár- og lausafjárstöðu SPRON.

Undanfarna fimm mánuði hefur mikilli orku verið varið í að finna lausnir til að treysta rekstrargrundvöll SPRON til framtíðar.

Þetta hefur verið gert í nánu samstarfi við íslensk stjórnvöld og erlenda lánveitendur. Viðræður við erlenda lánveitendur gengu vel og lágu fyrir drög að samningi þegar Seðlabanki Íslands tilkynnti Fjármálaeftirlitinu að þeir myndu ekki veita SPRON frekari fyrirgreiðslu.

Þetta var gert þrátt fyrir að SPRON hafi sýnt fram á að sparisjóðurinn gæti staðið við allar skuldbindingar sínar til skamms tíma enda hefur lausafjárstaða SPRON ekki versnað á þessu ári. Fjármálafyrirtæki með jafn víðtæka þjónustu og SPRON getur hins vegar ekki starfað eðlilega nema eiga greið viðskipti við Seðlabanka,sérstaklega í ljósi þess að ekki er um virkan millibankamarkað að ræða.

Með þessari ákvörðun Seðlabankans gafst hvorki tækifæri til að ljúka samningum við lánveitendur og byggja þannig upp eigið fé fyrirtækisins né að ljúka við sölu skuldabréfa til Íbúðalánsjóðs og leysa þannig úr lausafjárstöðu sparisjóðsins.

Stjórn SPRON var því knúin til þess að fara þess á leit við Fjármálaeftirlitið að það taki yfir vald hluthafafundar SPRON hf. í samræmi við heimildir neyðarlaga nr. 125/2008.

Stjórn SPRON harmar þessi endalok sparisjóðsins sem hefur átt farsæla sögu í 77 ár og hefur aldrei í sögu sinni þurft að leita eftir aðstoð hins opinbera en hefur á hinn bóginn lagt ríkulega til samfélagsins með framlögum sínum til menningar- og góðgerðarmála allt frá stofnun.

Stjórn SPRON vill jafnframt koma þeim skilaboðum áleiðis til starfsmanna að hún harmar hvernig yfirtakan var kynnt opinberlega af hálfu stjórnvalda þar sem örlögum sparisjóðsins og starfsmanna var lýst í beinni útsendingu af viðskiptaráðherra síðastliðinn laugardag án þess að stjórnendum væri fyrst gefið færi á því að greina starfsmönnum frá því hvað gerst hafði.

Stjórnin þakkar öllum starfsmönnum SPRON fyrir gjöfult samstarf á liðnum árum og óskar þeim gæfu og góðs gengis í þeim verkefnum sem framtíðin ber í skauti sér."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×