Viðskipti innlent

Viðskiptavinir Nova orðnir 40.000 talsins

Viðskiptavinir Nova eru nú 40.000 talsins. Nova hefur því náð í kringum 12% hlutdeild á farsímamarkaði á því rúmlega einu og hálfa ári sem félagið hefur starfað, en það hóf 3G farsímaþjónustu 1. desember 2007.

Í tilkynningu frá Nova segir að auk hinnar hefðbundnu farsímaþjónustu með háhraða netaðgangi hefur 3G pungurinn ekki síður slegið í gegn, en hann tengir fartölvur netinu. Margir hafa nýtt sér 3G punginn í stað hefðbundins netsambands og þannig hætt með ADSL-tengingu og heimasíma og látið farsíma og pung duga.

Viðskiptavinir Nova eru konur og karlar á öllum aldri og segja má að tilboðið „0 kr. Nova í Nova" eigi sinn þátt í því hversu mjög viðskiptavinunum hefur fjölgað á skömmum tíma.

Nova hefur lagt sig fram um að beita nýjum og skemmtilegum aðferðum við markaðsstarf og þjónustu við viðskiptavini og verið brautryðjandi á meðal fyrirtækja í notkun netsins hvað það varðar. Vinir Nova á Facebook eru nú yfir 5.000 talsins, og þar svara starfsmenn fyrirtækisins fyrirspurnum viðskiptavina og flytja nýjustu fréttir frá fyrirtækinu.

Elías Fannar Hjaltason er fjörutíuþúsundasti viðskiptavinur Nova og í tilefni af því hlaut hann að gjöf nýja tónlistarsímann Nokia 5800. Elías er einmitt vinur Nova á Facebook en á myndinni með honum eru starfsmenn Nova sem tóku á móti honum og færðu honum gjöfina.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×