Viðskipti innlent

Lúxushús við Holmen bitbein hjá þrotabúi Baugs

Meðal þeirra eigna sem þrotabú Baugs og Gaumur eignarhaldsfélag Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og fjölskyldu bítast nú um er lúxushús við Holmen í hjarta Kaupmannahafnar. Húsið er til sölu hjá fasteignasölunni Nybolig og er verðmiðinn 15 milljónir danskra kr. eða rúmlega 360 milljónir kr.

 

Í frétt um málið á vefsíðunni Business.dk segir að um sé að ræða..."et luksusiöst byhus" sem stendur við Galionsvej skammt frá Christianshavn. Þetta hús er skráð í eigu BG Denmark Aps sem Gaumur yfirtók tæplega hálfu ári fyrir gjaldþrot Baugs.

 

Fram kemur í umfjöllun Business.dk að nýbúið sé að gera endurbætur á húsinu en það var keypt árið 2005 á 11 milljónir danskra kr. Samkvæmt veðbókarvottorði hvíla skuldir upp á 6,7 milljónir danskra kr. á húsinu.

 

Eins og fram hefur komið í fréttum tilheyrir skíðahótel í Courchevel í frönsku Ölpunum einnig BG Denmark ásamt skíðakofa á sama stað. Er hótelið metið á 160 milljónir danskra kr. eða tæpa 4 milljarða kr. Bókfært verð skíðakofans er aftur á móti tæplega 64 milljónir danskra kr. eða rúmlega 1,5 milljarð kr. Kofinn mun einnig vera til sölu.

 

Fram kemur að þrotabú Baugs vill fá andvirði þessara eigna endurgreitt hvort sem þær verða seldar eða ekki.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×