Innlent

Meiri skít á landið, segir landgræðslustjóri

Kristján Már Unnarsson skrifar
Íslendingar gætu sparað sér tug milljóna króna áburðarkaup á ári með því að nota fremur skít, - öðru nafni lífrænan úrgang. Þetta segir Landgræðslan sem hvetur til þess með ráðstefnu í Gunnarsholti á morgun að landsmenn nýti skítinn betur.

Skítadreifari sem úðar kúamykju yfir Landeyjasand er dæmi um hvernig lífrænn úrgangur er notaður til að bæta landið. Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri segir að gríðarlegt magn af lífrænum áburði falli til hérlendis sem Íslendingar hafi alls ekki nýtt sem skyldi.

Landgræðslan vekur athygli á þessu með málþingi í Gunnarsholti á morgun. Fuglager við frárennsli sláturhúss bendir til að þar séu lífræn efni á leið í hafið. Landgræðslustjóri segir að mikið af verðmætum áburðarefnum, sem falli til við matvælavinnslu, bæði fiskvinnslu og kjötframleiðslu, hafi til þessa verið urðuð eða fleygt í sjóinn. Það sé siðferðileg skylda Íslendinga gagnvart umhverfinu að nýta úrganginn betur.

"Nú eru breyttir tímar og okkur ber að nýta þetta. Þetta eru verðmæt áburðarefni og landið okkar þarf svo sannarlega að fá þennan lífræna úrgang," segir Sveinn.

Á heimilum landsins gætu menn einnig spurt sig hvort mikið af því sem fer í ruslapokana ætti ekki fremur að fara í jarðgerðartunnu. Sveinn segir að bæði þurfi hugarfarsbreytingu en einnig tæknilegar úrlausnir. Hér sjáum við sláturúrgang tættan niður, honum blandað saman við trjákurl og annan úrgang, og úr verður úrvals gróðurmold. Þetta snýst líka um beinharða peninga sem samfélagið munar um.

"Við erum að tala um tugi milljóna króna sem þetta gæti sparað í innflutningi á tilbúnum áburði," segir landgræðslustjóri.

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×