Viðskipti innlent

Vilja frest til að ákveða hvort kröfuhafar fái 95% hlut í bankanum

Skilanefnd Glitnis hefur farið fram á tveggja vikna frest til að taka ákvörðun hvort erlendir kröfuhafar eignist 95% hlut í Íslandsbanka. Kröfuhafar vilja meiri upplýsingar um fjárhagsstöðu bankans. Allt opið ennþá segir formaður skilanefndarinnar.

Fyrir rúmum hálfum mánuði undirritaði skilanefnd Glitnis og íslenska ríkið samninga um uppgjör milli gamla og nýja bankans. Samkomulagið felur í sér að erlendir kröfuhafar geta eignast 95% hlutafjár í Íslandsbanka. Ákvörðunin átti að liggja fyrir á morgun, svo verður ekki.

Árni Tómasson, formaður skilanefndarinnar óskaði eftir því í dag við fjármálaráðuneytið að fá að fresta ákvörðuninni í tvær vikur. Hann átti í dag símafundi með óformlegu kröfuhafaráði. Þar kom fram að kröfuhafar telja sig vanta upplýsingar til að geta tekið ákvörðun um málið. Nýjar fjárhagsupplýsingar um Íslandsbanka hafa verið lagðar fram um rekstur og efnahag bankans og munu næstu tvær vikur verða nýttar til að fara yfir þær með fjármálaráðgjafanum UBS.

Árni sagði þegar skrifað var undir samninginn fyrir hálfum mánuði að helmingslíkur væru á að erlendir kröfuhafar eignuðust bankann. Spurður um hvort sömu líkur eigi við núna segir hann að allt sé opið meðan ekki sé búið að taka ákvörðun.

Ekki náðist í Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra vegna málsins í dag.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×