Viðskipti innlent

Hræðsla bankamanna lamar bankakerfið

Ákvörðunarfælni bankastarfsmanna og minnkandi lánsfjáreftirspurn skýrir að mestu leyti af hverju peningar safnast nú fyrir inni í viðskiptabönkunum. Þetta er mat seðlabankastjóra. Hann segir að hræðsla bankamanna við að taka ranga ákvörðun hafi lamandi áhrif á bankakerfið.

Innlánsreikningar bankanna hafa bólgnað út eftir bankahrunið en þar liggja nú inni vel á annað þúsund milljarðar króna.

Lítil hreyfing er á þessu fjármagni og svo virðist sem fólk og fyrirtæki kjósi að geyma peninga sína á innlánsreikningum frekar en að nýta þá til fjárfestingar.

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir að ríkjandi óvissa með þróun efnahagsmála skýri þetta að mörgu leyti. Verulega hafi dregið úr lánsfjáreftirspurn en má einnig leita skýringa í ákvörðunarfælni bankastarfsmanna.

„Hingað til höfum við ekki verið með alvöru banka í þeirri merkingu. Þeir sem hafa verið inni í bönkunum hafa verið hræddi við ákvarðanir. Hvort sem það er að lána einhverjum eða gera eitthvað vegna þess að það er umræða um það að það þurfi allt að vera gagnsætt og það megi ekki mismuna og þvíumlíkt," sagði seðlabankastjóri á blaðamannafundi peningastefnunefndar í gær.

Allir verði afskaplega hræddir. „Svo eru allir opinberir starfsmenn í raun og veru í bönkunum eins og er óbeint á vegum ríkisins. Þá er kannski besta og auðveldasta lausnin að sitja og gera ekki neitt vegna þess að það mun enginn saka þig fyrir það, en það er auðvitað mjög slæmt fyrir heildardæmið," sagði Már.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×