Viðskipti innlent

Seðlabankinn seldi íbúðabréf fyrir 11 milljarða

Útboð Seðlabankans í morgun á íbúðabréfum sem komust í eigu ríkissjóðs í kjölfar falls bankanna fyrir ári viðist hafa verið nokkuð vel heppnað þótt ekki hafi öll bréfin skipt um hendur að þessu sinni. Alls voru seld bréf fyrir 11 milljarða kr.

 

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að Seðlabankinn tilkynnti fyrir helgi um fyrirhugað útboð á slíkum íbúðabréfum að nafnvirði allt að 18,5 milljörðum kr. í lengri flokkunum þremur.

 

Í HFF24 bárust alls tilboð upp á 4,1 milljarða kr. að nafnverði og var tilboðum tekið fyrir 1,6 milljarða kr á 4,05% ávöxtunarkröfu.

 

Tilboð að fjárhæð 7,5 milljarða kr. bárust í HFF34 og þar af var tekið tilboðum fyrir tæplega 4,3 milljarða kr. á 4,12% ávöxtunarkröfu.

 

Mesti áhuginn reyndist svo á HFF44. Í þann flokk bárust tilboð fyrir 9,6 milljarða kr. að nafnverði og seldi Seðlabankinn öll þau bréf sem boðið var upp á í flokknum, alls 5,1 milljarða kr. að nafnvirði.

 

Eftir standa þá í eigu ríkissjóðs HFF24-bréf að nafnvirði 4,3 milljarðar kr. og HFF34-bréf fyrir 3,2 milljarða kr. að nafnvirði.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×