Viðskipti innlent

Birtíngur eignast ekki Árvakur

Hreinn Loftsson
Hreinn Loftsson

Hreinn Loftsson stjórnarformaður Birtíngs segist ekki hafa gert tilboð í Árvakur, Útgáfufélag Morgunblaðsins, en frestur til þess rann út í gær. Fjórir hópar fá að gera skuldbindandi tilboð í útgáfuna en það er fyrirtækjaráðgjöf Nýja Glitnis sem sér um söluferlið á útboði hlutafés í félaginu. Tilboðum skal skilað inn eigi síðar en 17.febrúar.

„Ég tók þá ákvörðun fyrir hönd Birtíngs að taka ekki þátt í þessu, við hurfum því frá," segir Hreinn en Birtíngur gefur meðal annars út DV auk nokkurra annarra tímarita.

Hreinn segir að eftir að hafa séð upphaflegu gögnin hafi þeir ekki séð ástæðu til þess að taka þátt í þessu ferli. Það er því ljóst að Birtíngur mun ekki eignast Árvakur en Hreinn segir einnig að erfiðar horfur í þessum rekstri séu framundan.

Einn hópur af þessum fjórum aðilum er hópur sem kallar sig Almenningshlutafélag um Morgunblaðið. Fyrir þeim hópi fer Vilhjálmur Bjarnason fjárfestir en um 500 aðilar standa að baki félaginu.

Ekki liggur fyrir hverjir standa að hinum tilboðunum þremur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×