Viðskipti innlent

Brúnin heldur að léttast á íslenskum neytendum

Enn dregur úr svartsýni íslenskra neytenda samkvæmt væntingavísitölu Capacent Gallup sem birt var í morgun. Vísitalan hækkaði, annan mánuðinn í röð, sem er til vísbendingar um að brúnin er heldur farin að léttast á íslenskum neytendum eftir erfiðan vetur.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að þar til í mars höfðu væntingarnar dregist saman og svartsýnin aukist samfelld frá bankahruninu. Í mars varð hinsvegar viðsnúningur þegar vísitalan hækkað um 55% frá fyrri mánuði og núna í apríl hækkar vísitalan enn, í mun minni mæli þó, og stendur nú í 39 stigum sem er hækkun um 3% frá fyrri mánuði.

Allar undirvísitölur hækka frá fyrri mánuði sem er til vitnis um að væntingar hafa glæðst bæði hvað varðar mat á núverandi ástandi og hvert ástandið verður að hálfu ári liðnu. Þá telja neytendur ástandið í efnahags- og atvinnumálum ekki jafn slæmt og áður.

Þrátt fyrir að óvissan sé vissulega enn mjög mikil í hagkerfinu er ljóst að margt hefur á undanförnum vikum þróast til betri vegar sem skýrir aukna bjartsýni neytenda. Verðbólgan hefur nú þegar hjaðnað mikið og útlit er fyrir að áframhald verði þar á. Þá hafa stýrivextir Seðlabankans verið lækkaðir og von á meiri lækkunum þeirra á næstu mánuðum. Loks er fyrirséð að ýmis stór úrlausnarmál á borð við endurreisn bankakerfisins og úrlausn Icesave deiluna eru nú að komast nær því að klárast.

Á móti kemur að þróunin á gengi krónunnar hefur ekki verið íslenskum neytendum hagstæð og kann það að skýra af hverju vísitalan hækkar mun hægar í þessum mánuði en í mars. Þegar mæling vísitölunnar fór fram í byrjun mars var það veikingarskeið sem krónan hefur verið í að undanförnu ekki búið að festa sig í sessi.

Núna er hinsvegar ljóst að veikingarskotið varði lengur en vonir stóðu til auk þess sem gengi krónunnar hefur enn gefið talsvert eftir frá síðustu mælingu væntingavísitölunnar. Þróun krónunnar hefur hingað til haft talsverð áhrif á væntingar neytenda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×