Vilhjálmur Bjarnason var kjörinn viðskiptafræðingur ársins á Íslenska þekkingardeginum 2009 sem fór fram í Salnum í Kópavogi í dag. Ráðstefnan var haldin á vegum Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga.
Í umsögn um Vilhjálm, vegna valsins, segir að hann hafi verið óþreytandi síðustu árin við að vekja athygli á skorti á upplýsingagjöf til minni hluthafa í rekstri almenningshlutafélaga á Íslandi. Hann hafi verið ötull við að gagnrýna harðlega marga þá sem voru í forystu útrásarinnar fyrir að gæta ekki að heildarhagsmunum hluthafa og fara ekki eftir viðurkenndum reglum í viðskiptum. Þá segir að Vilhjálmur sé sjálfum sér samkvæmur. Hann hafi þorað að fara á móti straumnum og haldið fast í sína sannfæringu án þess að bugast vegna mótbyrsins sem skoðanir hans mættu oft á tíðum á undanförnum árum.
Þá hlaut hugbúnaðarfyrirtækið CCP Íslensku þekkingarverðlaunin en fyrirtækið stendur meðal annars að baki tölvuleiknum Eve online.
Vilhjálmur Bjarnason er viðskiptafræðingur ársins
