Viðskipti innlent

HB Grandi: Úthafskarfinn gaf 1,5 milljarð í sumar

Venus. Myndin er á heimasíðu HB Granda.
Venus. Myndin er á heimasíðu HB Granda.

Úthafskarfaveiðar HB Granda í sumar gáfu af sér um 1,5 milljarð kr. miðað við verðmæti upp úr sjó. Fjallað er um veiðarnar á heimasíðu HB Granda og þar eru þær sagðar vera ágæt búbót.

 

,,Við getum ekki annað en verið mjög ánægðir með veiðar togaranna í sumar. Veiðarnar hafa gengið vel og það á við um svo til allar fisktegundir. Það er helst ýsan, sem gengið hefur treglega að veiða, en hún hefur lítið sést á þeim slóðum sem skipin okkar halda sig aðallega á," segir Birkir Hrannar Hjálmarsson, rekstrarstjóri togara HB Granda í viðtali á heimasíðunni.



Að sögn Birkis Hrannars er mikil ánægja með það hvernig úthafskarfaveiðarnar þróuðust að þessu sinni.

 

,,Væntingar voru ekki mjög miklar vegna þess að vertíðin í fyrra var ákaflega döpur, svo ekki sé meira sagt. Undanfarin ár hefur karfinn úti á Reykjaneshryggnum gefið sig til frá því í byrjun maí og yfirleitt hefur veiðin ekki staðið lengur en fram í fyrstu vikuna í júlí," segir Birkir Hrannar.

 

"Að þessu sinni voru veiðarnar stundaðar fram að mánaðamótum júlí og ágúst en þá luku skipin okkar við að veiða úthlutaðan kvóta. Við vorum með fjögur skip á þessum veiðum og heildaraflinn varð tæplega 6.800 tonn. Þetta er frábær búbót og vonandi benda aflabrögðin til þess að ástand stofnsins sé gott."



Að lokinni úthafskarfavertíðinni fór Venus HF til veiða í rússneskri og síðan norskri lögsögu í Barentshafi og lauk við að veiða botnfiskkvóta HB Granda þar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×