Viðskipti innlent

Sagði suma stunda viðskipti á gráum svæðum

Bjarni Ármannsson
Bjarni Ármannsson MYND/ARNÞÓR BIRKISSON
Bjarni Ármannsson fyrrverandi bankastjóri Íslandsbanka sagði í ræðu á ráðstefnu Fjármáleftirlitsins í janúar árið 2005 að eftirlitið ætti frekar að taka harðar á ákveðnum einstaklingum en að gefa út almennar yfirlýsingar um æskilega hegðun á markaði. Hann sagði að þrátt fyrir að allir væru sammála um að fylgja ætti settum reglum væru sumir á gráum svæðum, í sumum tilfellum væri það gert af ásetningi.

Aðalræðumaður ráðstefnunnar var Sir Howard Davies, fyrrverandi forstjóri breska fjármálaeftirlitsins. Meðal annarra ræðumanna voru Halldór J. Kristjánsson, Sigurður Einarsson og Valgerður Sverrisdóttir.

Bjarni sagði að þetta gæti orðið langtíma vandamál hér á landi ef ekki yrði tekið á því á réttan hátt. Hann sagði þessa hegðun geta orðið íslenskum fjármálamarkaði mjög skaðleg til lengri tíma litið.

Bjarni sagði einnig í ræðu sinni að einn af kostum íslenska fjármálamarkaðarins væri hversu einfaldar boðleiðir væru á milli eftirlitsins og einstakra fyrirtækja.

„Þeir sem stunda viðskipti á íslenskum fjármálamarkaði virðast vera áhættusæknari en almennt gerist annarsstaðar í heiminum. Hluti af þeirri skýringu er sú að ný kynslóð hefur auðgast og fest sig í sessi í atvinnulífinu. Á margan hátt má einnig finna skýringu á þessari stefnumörkun í arfleifð og efnahaglegum rótum þjóðarinnar," sagði Bjarni.

Þá sagði hann að tengslin milli Fjármálaeftirlitsins og banka og fjármálastofnanna væru viðkvæm, og yrðu að byggjast á gagnkvæmu trausti.

„Það er því mikilvægt að varúðar sé gætt þegar lög sem gætu stefnt þessum tengslum í hættu eru sett. Ennfremur, verða allir þeir sem stunda viðskipti á fjármálamarkaðnum að taka ábyrgð á gjörðum sínum, annars er hætta á því að lagaramminn á Íslandi verði þrengri en gengur og gerist í löndunum í kringum okkur."

Hann sagði mikilvægt að hér á landi yrði skapaður trúverðugur rammi í kringum fjármálamarkaðinn

„Þetta þarf ekkert endilega að gera með lögum og reglum, sem gætu þá virkað sem hlekkir á markaðinn og komið í veg fyrir að hann verði samkeppnishæfari, heldur er þetta frekar spurning um viðhorf og aga sem verður á ríkja á markaðnum."




Tengdar fréttir

Líkti Fjármáleftirlitinu við engla

Valgerður Sverrisdóttir, þáverandi viðskiptaráðherra, líkti Fjármálaeftirlitinu við engla í ávarpi sem hún flutti á ráðstefnu eftirlitsins í janúar árið 2005. Á sömu ráðstefnu sagði Sigurður Einarsson, þáverandi stjórnarformaður Kaupþings, eftirlitsaðila með fjármálastarfsemi hér á landi vera jafn kraftmikla og eftirlitsstofnanir í Lúxemborg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×