Viðskipti innlent

Fullkomin óvissa um endurreisnarsjóð Straums

Sigríður Mogensen skrifar
Forstjórinn fyrrverandi og stjórnarformaðurinn. William Fall og Björgólfur Thor.
Forstjórinn fyrrverandi og stjórnarformaðurinn. William Fall og Björgólfur Thor.

Þrír milljarðar króna í endurreisnarsjóði Straums, eru í fullkominni óvissu og hugsanlega glatað fé. Fjöldi erlendra fjárfesta hafði sýnt sjóðnum áhuga.

Straumur stofnaði dótturfyrirtækið Icelandic Capital Management til að halda utan um rekstur sjóðsins og ætlaði bankinn sjálfur að leggja 6 milljarða króna í verkefnið.

Stefnt var að því að aðrir fjárfestar legðu til allt að 70 milljarða króna. Eftir að skilanefnd á vegum Fjármálaeftirlitsins tók yfir Straum virðist verkefnið vera að stöðvast, en samkvæmt heimildum fréttastofu hafði fjöldi erlendra fjárfesta sýnt því áhuga.

Stefna sjóðsins var að líta til fjárfestinga í íslenskum fyrirtækjum og fasteignum. Gunnar Thoroddsen, einn framkvæmdastjóra sjóðsins, sagði í samtali við fréttastofu í dag að óvissa ríki um framhaldið. Vonast hann til þess að sjóðurinn geti starfað áfram enda gríðarlega mikilvægt verkefni fyrir framtíð íslensks atvinnulífs.

Í síðustu viku voru 3 milljarðar króna nú þegar komnir í sjóðinn, og voru þeir geymdir á innlánsreikningum hjá Straumi. Stóra spurningin er hvort sjóðurinn njóti sömu tryggingar og aðrir innlánseigendur bankans. Fyrst um sinn virðist svo ekki vera.

Samkvæmt lögum um innistæðutryggingar stendur skýrt að dótturfélög njóti ekki ábyrgðar. En í sömu málsgrein laganna stendur þó eftirfarandi:

„Hér segir að innistæður sjóða um sameiginlega fjárfestingu séu ekki undanskildar tryggingunni. Þetta er þó ekki fullkomlega skýrt og því ekki hægt að útiloka að peningarnir séu glataðir."

Framkvæmdastjórar sjóðsins hafa sent erindi til skilanefndar Straums og óskað eftir svörum um framhaldið.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×