Viðskipti innlent

Tapa 1,3 milljörðum vegna Icesave

Sérstök hagsmunasamtök Icesave innstæðueigenda á eyjunni Guernsey, sem heyrir undir bresku krúnuna, eru æfareið þar sem bresk yfirvöld ætla ekki að ábyrgjast innstæður sparifjáreigendanna að fullu. Sparifjáreigendurnir munu tapa rúmum 1,3 milljörðum króna.

Bresk yfirvöld hafa fullyrt að þau muni ábyrgjast allar Icesave innstæður sparifjáreigenda umfram það sem íslensk stjórnvöld hyggjast ábyrgjast en þar er eyjan Guernsey, milli Englands of Frakklands, undanskilin.

Sparifjáreigendur í eyjunni fá einungis 89% af sínum innstæðum greitt til baka af breska ríkinu. Ástæðan er sú að innstæðutryggingar Guernsey ná ekki til sparifjáreigenda Landsbankans þar sem viðkomandi lög um innstæðutryggingar tóku gildi á eyjunni eftir að Landsbankinn fór í þrot.

Einn fulltrúi frá hagsmunasamtökunum telur að breska ríkið eigi að standa betur við fæturna á þeim sparifjáreigendum sem töpuðu sparifé sínu á falli Landsbankans. „Önnur ríki sem hafa lent í svipuðum málum hafa sett sig í spor innstæðueigendanna og staðið við bakið á þeim", segir hann.

Sparifjáreigendur á Guernsey höfðu lagt rúmlega 117 milljónir Sterlingspunda inn á Icesave reikninga Landsbankans en sú upphæð samsvarar tæplega 24,2 milljörðum króna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×