Viðskipti innlent

Kaupþing í Lúxemborg opnar á ný

Kaup Blackfish Capital Management á Kaupþing í Lúxemborg hafa verið samþykkt af kröfuhöfum bankans. Gert er ráð fyrir að bankinn verði opnaður aftur í byrjun júlí.

Helstu lánadrottnar bankans samþykktu í atkvæðagreiðslu nýja áætlun um endurskipulagningu bankans. Nýir eigendur er fjármálafyrirtækið Blackfish Capital Management Limited sem er í eigu Rowland fjölskyldunnar í Bretlandi. Fjölskyldan rekur skrifstofur í London og skattaparadísinni Guernsey og áætlar hún að bjóða upp á hefðbundna bankastarfsemi á sviði eignastýringar og einkabankaþjónustu, meðal annars til Íslendinga.

Samkvæmt heimildum fréttastofu var hlutafé bankans núllstillt en fjölskyldan leggur bankanum til um 50 milljónir evra í nýtt hlutafé. Áætlað er að bankinn verði opnaður aftur í byrjun júlí. Um 15 Íslendingar eru starfandi í bankanum en ekki er orðið ljóst hversu margir þeirra munu starfa áfram fyrir bankann.

Allir viðskiptavinir Kaupþings í Lúxemborg, Belgíu og Sviss munu nú fá innstæður sínar að fullu greiddar og tekur íslenska ríkið ekki á sig neinar skuldbindingar í þeim efnum. Aðgangur íslenskra stjórnvalda að upplýsingum verður sami og áður.


Tengdar fréttir

Lánadrottnar Kaupþings í Lúx samþykkja endurskipulagningu

Helstu lánadrottnar Kaupthing bank í Lúxemborg samþykktu í dag nýja áætlun um endurskipulagningu bankans sem unnin var í samráði við Blackfish Capital Management Limited sem er fjármálafyrirtæki í eigu Rowland fjölskyldunnar í Bretlandi. Samþykktu lánardrottnar sem eiga 98% af útistandandi kröfum samkomulagið og hins vegar 23 af þeim 25 bönkum um ræðir. Í báðum tilvikum þurfti samþykki meirihluta til að samkomulagið öðlaðist gildi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×