Viðskipti innlent

Kaupmáttur launa ekki lægri síðan árið 2002

Á sama tíma og launahækkanir hafa verið litlar hefur verðbólgan geisað, sem gerir það að verkum að kaupmáttur launa hefur minnkað hratt. Hann hefur ekki verið lægri hér á landi síðan í árslok 2002.

 

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að kaupmáttur launa minnkaði um 0,5% á milli júlí og ágúst og frá því að kaupmáttur launa náði hámarki í byrjun síðasta árs hefur hann minnkað um 11,9%. Má reikna má með að kaupmáttur haldi áfram að rýrna á næstu mánuðum.

 

Laun hækkuðu einungis um 0,03% í ágúst frá fyrri mánuði. Þetta er mun minni hækkun en á sama tíma fyrir ári þegar laun hækkuðu um 0,46% frá fyrri mánuði og er þetta til vitnis um þann slaka sem kominn er á innlendan vinnumarkað.

 

Undanfarna 12 mánuði hafa laun hækkað um 2,2% en í ágúst árið 2008 höfðu laun hækkað um 9,1% fyrir sama tímabil skv. tölum frá Hagstofu Íslands. Launahækkanir síðustu mánaða hafa verið litlar miðað við það sem áður var þegar atvinnumarkaðurinn einkenndist af mikilli þenslu og launaskriði. Núna hefur hinsvegar syrt í álinn, en allt frá hruninu síðasta haust hefur vinnumarkaðurinn einkennst af umtalsverðu atvinnuleysi, hópuppsögnum og jafnvel beinum nafnlaunalækkunum í mörgum tilvikum.





Miklar breytingar hafa orðið á vinnumarkaði á Íslandi eftir að hin alþjóðlega fjármálakreppa skall á. Þannig hefur atvinnuþátttaka og vinnutími minnkað svo og atvinnuleysi stóraukist. Nafnlaunalækkanir hafa verið í mörgum af þeim greinum sem verst hafa orðið úti í kreppunni.

 

Jafnframt hefur hluti þeirra erlendu starfsmanna sem hingað komu á uppgangstímum flutt af landi brott, en á fyrstu sex mánuðum ársins var flutningsjöfnuður erlendra ríkisborgara neikvæður um 761 og er það í fyrsta skipti sem það gerist síðan 1992. Því hefur verulega reynt á sveigjanleika íslenska vinnumarkaðarins.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×