Viðskipti innlent

Áhyggjuefni hve áhugi fjárfesta á ríkisbréfum er lítill

Takmarkaður áhugi fjárfesta í útboði Seðlabankans á ríkisbréfum síðastliðinn föstudag hlýtur að vera stjórnvöldum nokkurt áhyggjuefni, sér í lagi í ljósi þess að útboðinu var m.a. ætlað að koma til móts við hluta af stórum gjalddaga innstæðubréfa í þessari viku.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að alls ráðgerði Seðlabankinn að taka tilboðum fyrir allt að 20 milljörðum kr. samanlagt í lengstu ríkisbréfaflokkunum þremur. Niðurstaðan varð hins vegar sú að aðeins bárust gild tilboð að upphæð ríflega 17 milljarða kr. og var tilboðum tekið fyrir rúma 13 milljarða kr.

Lengsti ríkisbréfaflokkurinn , naut mestra vinsælda í útboðinu og var tilboðum fyrir rúma 7 milljarða kr. að nafnverði tekið á ávöxtunarkröfunni 8,84%.

Ætla má að útlendingar hafi verið atkvæðalitlir í útboði föstudagsins þar sem þeir hafa sótt mest í stystu ríkisbréfaflokkana. Er það athyglisvert í ljósi þess að uppgjörsdagur þessa útboðs stenst á við gjalddaga innstæðubréfa Seðlabanka næstkomandi miðvikudag.

Ekki verður mögulegt að kaupa ný innstæðubréf í stað allra þeirra bréfa sem eru á gjalddaga enda áætlað að bjóða út bréf fyrir 75 milljarða kr. í útboði sem fram fer í dag, en nú eru útistandandi u.þ.b. 123 milljarðar kr. sem falla á gjalddaga á miðvikudag.

Raunar er rétt að benda á að öfugt við stóra gjalddaga á skuldabréfum með árlegar eða hálfsárslegar vaxtagreiðslur ættu ekki að verða mikil áhrif á krónuna af gjalddaga innstæðubréfanna þar sem vextir af þeim eru greiddir vikulega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×