Viðskipti innlent

Eiginkona bankastjóra SPRON seldi stofnfjárbréf

Eiginkona Guðmundar Haukssonar seldi stofnfjárbréf í SPRON árið 2007.
Eiginkona Guðmundar Haukssonar seldi stofnfjárbréf í SPRON árið 2007.

Hæstiréttur hefur skyldað formann skilanefndar SPRON til að upplýsa, að seljandi stofnfjárbréfa í sjóðnum í júlí 2007 er eiginkona þáverandi sparisjóðsstjóra, Guðmundar Haukssonar. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.

Þar kom ennfremur fram að bréfin voru seld eftir að stjórn SPRON ákvað að leita eftir skráningu sjóðsins sem hlutafélags. Guðmundur hafði á þeim tíma aðgang að trúnaðarupplýsingum um stöðu sjóðsins, sem kaupendur fengu ekki að vita um. Bréfin hröpuðu í verði við skráninguna og SPRON er nú í höndum skilanefndar.

Í frétt RÚV kemur fram að Grímur Sigurðsson hæstaréttarlögmaður flutti í dag erindi á fundi Samtaka fjárfesta um mál sem hann flutti fyrir Davíð Heiðar Hansson, sem keypti stofnfjárbréfin.

Eftir að gengi bréfanna hrundi vöknuðu grunsemdir um að ekki hefði allt verið með felldu, en stjórn SPRON ákvað 17. júlí 2007 að leita eftir skráningu. Jafnframt að leyfa skyldi viðskipti með bréfin í þrjár vikur eftir fundinn og að ekki skyldi upplýst um nýtt verðmat á sparisjóðnum.

Ljóst var að þeir sem voru á umræddum stjórnarfundi bjuggu yfir mun meiri upplýsingum en aðrir. Hæstiréttur varð við kröfu Davíðs Heiðars og nú hefur verið upplýst að seljandinn var Áslaug Björg Viggósdóttir, eiginkona Guðmundar Haukssonar sparisjóðsstjóra, sem sat stjórnarfundinn og bjó yfir öllum upplýsingum.

Lögmaður Davíðs Heiðars segir í viðtali við RÚV að ljóst sé að á það verði látið reyna fyrir Hæstarétti í að minnsta kosti tveimur málum, hvort stjórnarmennirnir og framkvæmdastjórinn, eða eiginkona hans, teljist hafa verið innherjar í þessum viðskiptum, en héraðsdómur hefur ekki viljað líta svo á.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×