Viðskipti innlent

Sykurskatturinn hefur gífurlegt flækjustig í för með sér

Andrés Magnússon.
Andrés Magnússon. Mynd/Pjetur
Svo virðist sem allir sem að verslun koma fordæmi aðferð ríkisstjórnarinnar við að koma á sykurskattinum svokallaða. Hann er sagður ganga þvert á lýðheilsustefnu í mörgum tilfellum.

Landsmenn munu merkja það á næstu dögum að matarkarfan hefur hækkað umtalsvert. Verðbólgan eykst líka og skuldir heimilanna hækka. Það er að þakka hinum svokallaða sykurskatti.

Það var lagt upp með sérstakan skatt á gosdrykki og aðrar vörur sem innihéldu mikinn sykur. Niðurstaðan var hinsvegar breyting á vörugjöldum sem verslunarmenn segja að sé tóm steypa.

„Hafi menn viljað ná fram aukinni skattheimtu með einhverjum slíkum hætti hefði legið beinast við að gera það í gegnum virðisaukaskattskerfið. Það væri miklu auðveldari framkvæmd en þetta hefur gífurlegt flækjustig í för með sér," segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu.

Andrés segir einnig að þetta hafi í för með sér mikla mismunun og gangi í sumum tilfellum þvert á lýðheilsustefnu.

„Það sem gerist síðan er að það er fullt af vörum sem er mælt með að hálfu Lýðheilsustöðvar sem lenda í þessum skatti og ég nefni sem dæmi sykurlaust tyggjó. Lýðheilsustöð hefur beinlínis mælt með neyslu sykurlauss tyggjós," segir framkvæmdastjórinn og bætir við að mjólkurvörur sleppi alltaf óháð sykurmagni.

Fleiri hafa tjáð sig og tala á svipuðum nótum og Andrés. Meðal þeirra er Félag íslenskra stórkaupmanna og Alþýðusamband Íslands.


Tengdar fréttir

Mat- og drykkjarvörur hækka í dag

Margar mat- og drykkjarvörur hækka í dag vegna vörugjalda stjórnvalda, sem upphaflega átti að vera sykurskattur. Lítri af ávaxtasafa hækkar til dæmis um 16 krónur en sykraðar mjólkurvörur lítið eða ekkert, nema hvað ís úr mjólk og rjóma hækkar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×