Viðskipti innlent

Kaupmáttur Íslendinga á erlendri grundu hefur hrapað

Ætli Íslendingur að ferðast til Japans þarf hann nú að reiða fram 2,5 sinnum fleiri krónur fyrir jenin en í árslok 2007 og 2,2 sinnum fleiri franka ef ferðinni er heitið til Sviss. Hefur kaupmáttur krónunnar rýrnað hvað mest gagnvart þessum myntum á tímabilinu frá árslokum 2007.

Greining Íslandsbanka fjallar um rýrnandi kaupmátt Íslendinga á erlendri grundu í Morgunkorni sínu. Þar segtir að á sama tíma hefur verð á tyrkneskri líru og sterlingspundum hækkað um rúm 60% gagnvart krónunni og hefur kaupmáttur íslenskra ferðalanga rýrnað einna minnst í þessum löndum í samanburði við í öðrum löndum.

Af Norðurlöndunum er hagstæðast að skreppa til Svíþjóðar en sænska krónan hefur hækkað um 85% gagnvart þeirri íslensku frá því í árslok 2007. Á sama tíma hefur evran, líkt og myntkarfa gengisvísitölu, ríflega tvöfaldast í verði gagnvart íslensku krónunni.

„Þegar öllu er á botni hvolft þá hefur kaupmáttur Íslendinga á erlendri grundu snarlega minnkað og þá sama hvert ferðinni er heitið," segir í Morgunkorninu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×