Viðskipti innlent

Landsbankinn semur við Citibank um gjaldeyrisreikninga

Landsbankinn segir að nú liggi fyrir samstarfssamningur við Citibank um opnun reikninga í öllum helstu viðskiptamyntum bankans, bandaríkjadal, evru, pundi svissneskum franka og japönsku jeni.

Í tilkynningu um málið segir að Landsbankinn hafi gert samninga við alþjóðlega banka um greiðslumiðlun í erlendri mynt en frá því í haust hefur erlend greiðslumiðlun að mestu farið fram í gegnum Seðlabanka Íslands.

Einnig hefur Landsbankinn opnað reikning í kanadískum dollurum hjá Royal Bank of Canada í Kanada, sænskum krónum hjá SEB í Svíþjóð, dönskum krónum hjá Jyske Bank í Danmörku og norskum krónum hjá DnB Nor í Noregi.

„Landsbankinn býr yfir áralangri reynslu og þekkingu á sviði erlendrar greiðslumiðlunar enda hefur bankinn annast stærstan hluta allrar erlendrar greiðslumiðlunar á Íslandi. Greiðslumiðlunin hefur gengið vel og Landsbankinn lagt áherslu á að byggja upp og viðhalda góðum samböndum við erlenda viðskiptabanka til að þjónusta viðskiptavini bankans enn betur," segir í tilkynningunni.

Ný greiðslufyrirmæli vegna greiðslna á bankareikninga hjá Landsbankanum má finna á vefsíðu Landsbankans www.landsbankinn.is.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×