Viðskipti innlent

Verkamannaflokkurinn slátrar hugmyndum um Íslandslán

Marianne Aasen þingmaður Verkamannaflokksins í Noregi segir að Miðflokkurinn muni hvorki komast lönd né strönd með hugmynd sína um 2.000 milljarða kr. lán til Íslands. Í samtali við ABC Nyheter slær Aasen þessa hugmynd alveg út af borðinu.

Aasen segir að það sé ekki tímabært að fari í hjáleiðir til að hjálpa Íslendingum í efnahagsþrengingum sínum. „Það telja Lundteigen og Miðflokkurinn að sé hægt en við erum ósammála og hann kemst ekkert áfram með þessa tillögu sína," segir Aasen.

Eins og fram hefur komið í fréttum bauð Per Olaf Lundteigen þingmaður Miðflokksins Höskuldi Þórhallssyni þingmanni Framsóknar upp á að Miðflokkurinn myndi beita sér fyrir risaláni til Íslands.

Hugmyndin hefur að sögn ABC Nyheter valdið uppnámi innan hinna ríkisstjórnarflokkanna tveggja Verkamannaflokksins og Vinstri sósíalista. Kristin Halvorsen fjármálaráðherra sé hörð á því að lán til Íslands eigi að fara í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

„Norskir skattgreiðendur eiga ekki að borga fyrir þá tilraun sem hægri menn á Íslandi stóðu fyrir," segir Aasen.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×