Skoðun

Lífeyrissjóðir og ferðaþjónusta

Magnús Orri Schram skrifar um atvinnuuppbyggingu

Samkvæmt fjölmiðlum undanfarna daga hafa Lífeyrissjóðir landsins sérstaklega horft til tveggja verkefna til að finna farveg fyrir fjárfestingar sínar og styrkja atvinnulíf landsmanna. Til skoðunar eru framkvæmdir við Háskólasjúkrahús og tvöföldum Hvalfjarðarganga. Því ber að fagna að lífeyrissjóðir hyggjast koma markvisst að endurreisn íslensks atvinnulífs. Uppbyggingu nýs sjúkrahúss ber að skoða gaumgæfilega og mun hafa fjölmarga kosti í för með sér. Hvalfjarðargöng voru framfaraskref á sínum tíma en tvöföldun þeirra í dag er hins vegar í ósamræmi við þá forgangsröðun sem þarf að viðhafa nú um stundir. Mín skoðun er sú að fjármunum sjóðanna eigi að verja til verkefna sem nýtast vaxtarbroddum í atvinnulífi landsmanna og þar vil ég sérstaklega tiltaka ferðaþjónustuna. Eitt dæmi innan þess geira er vert að nefna.

Um þessar mundir eru til umræðu hugmyndir um uppbyggingu á okkar vinsælustu ferðamannastöðum og horft er til möguleika á gjaldtöku/skattlagningu á ferðamönnum. Til greina kemur að setja upp gjaldtöku við komu eða brottför til landsins, við kaup á gistingu eða á stöðunum sjálfum. Hér myndi ég vilja sjá lífeyrissjóði grípa strax inn í með afgerandi hætti og leggja fram stofnfé til framkvæmda til bættrar þjónustu við okkar helstu náttúruperlur. Þannig gætum við farið strax í mannaflsfrekar framkvæmdir og um leið stutt við bakið á helsta vaxtarbroddi íslensks atvinnulífs. Lífeyrissjóðirnir myndu svo fá sitt fjármagn til baka yfir lengri tíma, í gegnum þá leið sem valin verður við öflun áðurnefndra skatttekna. Þannig yrði fjárfesting Lífeyrissjóðanna til að bæta þjónustu við ferðamenn, styrkja atvinnulíf landsmanna og stuðla að auknum gjaldeyristekjum til lengri tíma en ekki til að stytta ferðatíma.

Sjóðirnir myndu einnig mæta kröfum um arðsemi fjárfestinga.

Allar ákvarðanir á vettvangi ríkis, banka eða lífeyrissjóða, eiga að leggja grunn að nýrri sókn í atvinnumálum þjóðarinnar. Fjárfestingarstefna lífeyrissjóða á að mótast af þeirri framtíðarsýn. Að mínu mati fellur tvöföldun Hvalfjarðarganga ekki í þann flokk.

Höfundur er alþingismaður.




Skoðun

Sjá meira


×