Viðskipti innlent

Dohop nær samningum við Emirates

Íslenska tæknifyrirtækið Dohop hefur gert samning við Emirates-flugfélagið um rekstur á flugupplýsingakerfi fyrir vefsíðu Emirates. Kerfið gerir viðskiptavinum Emirates kleift að finna framhaldsflug á einfaldan og þægilegan hátt en Emirates hefur á sama tíma gengið til samstarfs við leiðandi lággjaldaflugfélög á helstu markaðssvæðum Emirates um tengiflug. Þetta samstarf Emirates við lággjaldafélögin byggir á tækni Dohop. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Dohop.

Þjónustan, sem hlotið hefur heitið Emirates Connection Search, sýnir tengiflug með flugfélögunum AirAsia, Clickair, EasyJet, IndiGo, JetLite og WestJet en Emirates undirbúa nú að bæta við fleiri lággjaldaflugfélögum.

Dohop hefur þróað leitarvél fyrir flugtengingar frá árinu 2004 en þá var opnuð fyrsta útgáfa leitarvélarinnar á vefnum, Dohop.com. Síðan hefur þjónustunni jafnt og þétt vaxið fiskur um hrygg og þrátt fyrir samdrátt í fluggeiranum síðustu mánuði hefur aðsókn á vefinn haldið áfram að aukast verulega.

„Það hefur sjaldan verið mikilvægara en einmitt nú að finna flug á lægsta mögulega verði og þjónusta Dohop gerir viðskiptavinum Emirates kleift að finna og bóka framhaldsflug á hagstæðu verði. Auk þess finnur leitarvélin þægilegustu flugtengingarnar sem völ er á hverju sinni," segir Jón Ingi Þorvaldsson, viðskiptastjóri hjá Dohop. „Það er mikill heiður fyrir Dohop að fá að vinna með Emirates að þróun hugbúnaðarlausna fyrir hinn margverðlaunaða vef Emirates.com," bætir Jón Ingi við.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×