Viðskipti innlent

Hagnaður Alfesca nam 3,4 milljörðum

Hagnaður Alfesca á síðasta fjárhagsári (júní til júní) nam 19,1 milljónum evra eða 3,4 milljörðum kr. og dróst saman um 33,4% milli ára. Hagnaður fjórða ársfjórðungs nam 2 milljónum evra, eða um 360 milljónum kr., dróst saman um 44,8% miðað við sama tíma í fyrra.

Í tilkynningu um uppgjörið segir að nettósala nam 623,7 milljónum evra á fjárhagsárinu, sem er 3,7% samdráttur miðað við árið á undan. Sala á 4. ársfjórðungi nam 131 miljón evra sem er 0,8% minna en á sama tíma í fyrra.

Efnahagskreppa, erfitt neytendaumhverfi, óhagstæðar gengisbreytingar og hátt hráefnisverð á laxi hafði áhrif á sölu félagsins.

Fjárhagsleg staða félagsins er áfram sterk og starfsemin stöðug. Nettóskuldir nema 141,6 milljónum evra við enda fjárhagsársins og hlutfall skulda á móti eigin fé er 42%.

"Síðasta fjárhagsár var erfitt fyrir félagið þar sem sala var mun tregari auk þess sem efnahags- og lánaumhverfi var mjög erfitt," segir Xavier Govare forstjóri forstjóri Alfesca í tilkynningunni.

„Á fjárhagsárinu 2008/09 hafa efnahagsaðstæður í Evrópu versnað til muna og kreppa orðið á lykilmörkuðum félagsins í Bretlandi, Frakklandi og á Spáni. Þetta ástand hefur leitt til samdráttar og ört vaxandi atvinnuleysis. Væntingar neytenda eru í lágmarki og allt þetta hefur hvatt smásöluaðila til að kynna tilboð og afslætti í von um að lokka að viðskiptavini."

Hvað framtíðina varðar segir Govare að efnahagsástandið og horfurnar fyrir nýhafið fjárhagsár eru háðar óvissu. „Við reiknum með að hráefnisverð á laxi muni áfram hafa áhrif á afkomu félagsins. Þrátt fyrir að eftirspurn eftir vörum félagsins ætti að haldast tiltölulega stöðug virðist tilhneiging neytenda til að leita eftir ódýrari vöru ætla að halda áfram og því mun geta félagsins til að mæta kröfum síbreytilegra markaðsaðstæðna skipta sköpum."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×