Viðskipti innlent

Bankastjóri samdi lög um gengistryggð krónulán

Lóa Pind Aldísardóttir. skrifar

Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Nýja Kaupþings, átti þátt í að semja lög sem bönnuðu gengistryggð krónulán. Þáttur hans í að halda til streitu innheimtu þeirra er því sérstaklega ámælisverður fullyrðir lögmaður hjóna sem hafa kært stjórnendur nýja og gamla Kaupþings til efnahagsbrotadeildar lögreglu fyrir gengislán.

Það var sagt frá því í fréttum í gær að hjón í Kópavogi hefðu kært gamla og nýja Kaupþing og auk þess persónulega fyrrverandi stjórnendur bankans og núverandi bankastjóra, Finn Sveinbjörnsson.

Hjónin tóku 23 milljóna króna gengistryggt húsnæðislán árið 2007 sem nú stendur í rúmum 56 milljónum.

Kæran byggir einkum á tvennu, að bankarnir hafi með markaðsmisnotkun haft áhrif á gengi krónunnar, viðskiptavinum sínum til tjóns, og að lög um vexti og verðtryggingu banni gengistryggð krónulán.

Gunnar Tómasson hagfræðingur og fyrrverandi starfsmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins tók undir þessa skoðun í Kastljósi í gærkvöldi.

Í greinargerð með frumvarpi þessara laga stendur skýrum stöfum að: Ekki verði heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi.

Lögin eru sett - áður en myntkörfulán voru boðin almenningi. Björn Þorri Viktorsson lögmaður hjónanna segir hlut Finns Sveinbjörnssonar sérstaklega ámælisverðan - þar sem hann hafi átt sæti í nefndinin sem samdi lögin er bönnuðu gengistryggingu krónulána.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×