Viðskipti innlent

Eignir sjálfseignastofnunnar SPRON orðnar að engu

Verðmæti hlutafjár sjálfseignarstofnunar SPRON varð að engu þegar bankinn hrundi á laugardag. Eigið fé stofnunarinnar nam rúmum einum milljarði króna en meginhlutverk hennar var að styrkja menningar- og íþróttastarfsemi á höfuðborgarsvæðinu.

Sjálfseignarstofnun SPRON var komið á fót við hlutfjárvæðingu bankans árið 2007. Um var að ræða peninga sem stofnfjáreigendur áttu ekki kröfu á.

Stofnunin var stærsti einstaki hluthafinn í SPRON með um 15 prósenta eignarhlut. Hluturinn var metinn á rúmar níu milljarða þegar bankinn var skráður í Kauphöllina.

Segja má að sjálfseignarstofnunin sem slík hafi verið það eina sem var eftir af gömlu sparisjóðahugsuninni þegar bankanum var breytt í hlutafélag. Stofnuninni var þannig ætlað að styrkja menningar- og íþróttarstarfsemi á höfuðborgarsvæðinu.

Hlutabréf í SPRON féllu hins vegar hratt í verði. Þegar bankinn var skráður í Kauphöllina í október árið 2007 stóðu bréfin í 16,8. Aðeins þremur mánuðum síðar var gengið komið niður í átta. Þegar ríkið tók bankann yfir um síðustu helgi voru bréfin metin á eina komma nítíu og eina krónu.

Verðmæti hlutabréfa stofnunarinnar hafði þannig rýrnað um átta milljarða eða úr níu milljörðum í rétt rúman einn milljarða.

Þeir peningar - sem eftir stóðu - urðu svo að engu þegar bankinn var tekinn yfir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×