Viðskipti innlent

Þrír sparisjóðir óska eftir auknu eigin fé frá stjórnvöldum

Þrír sparisjóðir hafa óskað eftir því að nýta sér heimild í neyðarlögum um að ríkissjóður leggi þeim til 20% af bókfærðu eigin fé eins og það var í árslok 2007. Og fleiri munu vera á leiðinni með slíka ósk.

Þeir þrír sparisjóðir sem um ræðir eru Sparisjóður Keflavíkur, Sparisjóður Norðfjarðar og Byr en fram kom hjá forstjóra Byr fyrir helgina að ósk um aðstoð frá ríkinu yrði sett fram nú í upphafi vikunnar.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir í samtali við Fréttastofu að hann eigi von á að erindi þessara sparisjóða verði afgreitt hratt og vel af hálfu stjórnvalda.

„Þessi mál fara í ákveðið ferli hjá okkur þar sem þess er gætt að eitt gangi yfir alla það er að jafnræðisreglan gildi," segir Steingrímur. "Að lokinni þessari skoðun tökum við svo ákvörðun."

Samkvæmt neyðarlögunum frá því í haust getur ríkissjóður lagt sparisjóðum til fjárhæð sem nemur allt að 20% af bókfærðu eigin fé í árslok 2007, gegn stofnfjárbréfum í viðkomandi sparisjóði, sem endurgjald í samræmi við það eignfjárframlag sem lagt er til.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×