Viðskipti innlent

Hagstæðar verðbólgutölur veiktu gengi krónunnar um 0,75%

Eftir nokkuð snarpa lækkun hefur gengi krónunnar verið stöðugt síðustu daga. Evran hefur verið í kring um 154 krónur frá því í lok síðustu viku og viðskiptin á millibankamarkaði með gjaldeyri hafa engin verið fyrr en í morgun, en í kjölfar birtingar á hagstæðum verðbólgutölum veiktist krónan um 0,75%.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að án hafta hefðu þessar tölur hins vegar líklega haft meiri og skjótari áhrif á gengisþróunina.

Hið sama má segja um viðbrögð gjaldeyrismarkaðarins við vaxtalækkun Seðlabankans í síðustu viku sem var minni en vænst var almennt á markaðinum. Viðbrögð gjaldeyrismarkaðarins komu seint og voru lítil við þeim tíðindum.

Ástæðu lækkunarhrinu krónunnar um miðjan mánuðinn má rekja til vaxtagjalddaga ríkisbréfaflokks og væntinga um gjaldeyrisflæði vegna hans. Flokkur þessi er tæplega 71 milljarðar kr. að nafnvirði og var 7% vaxtagreiðsla af honum á gjalddaga á þriðjudaginn í síðustu viku. Þarna var því um að ræða nærri 5 milljarða kr. greiðslu að ræða sem að verulegu leyti féll í skaut erlendra eigenda bréfanna, en gjaldeyriskaup vegna vaxtatekna eru leyfileg undir gjaldeyrishöftum.

Áhrifin af þessu voru jafn mikil og raun ber vitni vegna þess hvað gjaldeyrismarkaðurinn er grunnur. Í því sambandi má geta þess að veltan á millibankamarkaði með gjaldeyri var tæpir 4,0 milljarðar kr. í febrúar og í janúar var hún 4,3 milljarðar kr.

Áhrifin voru þó hugsanlega ekki að öllu leyti vegna gjaldeyriskaupa vegna vaxtagreiðslnanna sjálfra heldur einnig vegna þess að aðrir þátttakendur á gjaldeyrismarkaðinum hafi viljað safna gjaldeyri í sarpinn vegna ótta við veikingu krónunnar í kjölfar vaxtagreiðslugjalddagans. Þá má einnig vera að hluti af gjaldeyrisviðskipunum vegna þessara vaxtagreiðslna hafi ekki enn verið framkvæmdur.

Seðlabankinn hefur verið nokkuð stór þátttakandi á millibankamarkaði með gjaldeyri það sem af er ári. Bankinn var þannig með um 1,5 milljarða kr. af veltunni á millibankamarkaðinum í febrúar eða um 39% og um 1,3 milljarða kr. af veltunni í janúar eða 31%. Áhugavert verður að sjá tölur fyrir mars þegar þær verða birtar og þá hvort að lækkunina undanfarið megi rekja til þess að bankinn hafi verið umsvifaminni inni á gjaldeyrismarkaðinum en áður.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×