Erlent

Sálfræðingur ráðleggur fólki um veðskuldir

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Hluti af bókarkápunni.
Hluti af bókarkápunni.

Bandarískur sálfræðingur hefur skrifað bók til hjálpar fólki sem er að missa heimili sín vegna veðskulda. Iris Martin er hvorki bankastarfsmaður, fasteignasali né veðbraskari. Hún er hins vegar sálfræðingur með svokallaða ummyndunarsálfræði að sérgrein.

Martin starfaði í Hvíta húsinu þegar Bill Clinton var forseti Bandaríkjanna og átti meðal annars sæti í fjárlaganefnd Pennsylvania-ríkis. Þegar húsnæðiskreppan skall af fullum þunga á Bandaríkjamönnum í fyrra og lánardrottnar tóku að bera fasteignaeigendur út af heimilum sínum fór Martin að kynna sér málin og skrifaði upp úr því bókina Veðstríðin, The Mortgage Wars.

Þar ráðleggur hún fólki að standa fast á sínu og berjast, þess séu dæmi að húsnæðiseigendur hafi farið með mál sín fyrir dómstóla og unnið heimili sitt aftur þar. Martin gagnrýnir hve lítið sé rætt um þann tilfinningalega skaða sem fylgi því að glata heimili sínu. Sálfræðilega gangi það næst hjónaskilnaði og geti beygt þann sem fyrir verður verulega mikið andlega.

Martin bendir á að töluvert sé um að veðlán séu svokölluð varglán, eða „predatory lending", þar sem lánveitandi hefur ekki staðið rétt að láninu. Slíku veði megi fá hnekkt fyrir dómi þótt það sé reyndar hvergi skilgreint í bandarískum lögum hvers konar lán teljist varglán. Aðalatriðið sé þó að hafa það í huga að lífinu er ekki lokið þótt húsnæðið sé farið og hjá mörgum geti það hreinlega táknað nýtt upphaf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×