Erlent

Ída truflaði eldsneytisvinnslu á Mexíkóflóa

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Borpallur. Myndin tengist ekki þessari frétt.
Borpallur. Myndin tengist ekki þessari frétt.

Þriðjungur eldsneytisvinnslustarfsemi á Mexíkóflóa lá niðri í gær þegar hitabeltisstormurinn Ída fór um flóann og gekk meðal annars yfir olíuborpalla.

Ída, sem gekk yfir El Salvador sem fellibylur um helgina og varð þar 124 að bana, hefur nú fallið niður í flokk hitabeltisstorms og er vindhraði hennar um 100 kílómetrar á klukkustund. Stormurinn fór yfir Mexíkóflóa og ógnaði þar olíu- og gasborpöllum en fjöldi starfsmanna var fluttur burt með þyrlum áður en Ída kom að pöllunum. Að minnsta kosti einn olíuborpallur, suður af New Orleans, varð fyrir tjóni og lá um þriðjungur allrar eldsneytisvinnslu á flóanum niðri í gær.

Ída hefur nú tekið stefnuna á Alabama og Flórída og hafa yfirvöld skipað íbúum á svæðum, þar sem hætt er við flóðum í stormviðri, að yfirgefa heimili sín. Þá hefur að minnsta kosti einni höfn í Alabama verið lokað. Gert er ráð fyrir að starfsemi á olíuborpöllum verði komin í samt lag í dag en fellibylir á Mexíkóflóa geta hækkað eldsneytisverð í Bandaríkjunum í einu vetfangi með því að trufla framleiðsluna. Til að mynda rauk verðið upp nokkrum sinnum hin miklu fellibyljaár 2004 og 2005 en þá fóru bylir á borð við Katrínu um flóann og aðliggjandi ríki Bandaríkjanna með gríðarlegu tjóni. Gert er ráð fyrir að tæpar þrjár milljónir manna á svæðinu frá Lousiana til Flórída finni fyrir Ídu þegar hún gengur yfir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×