Viðskipti innlent

Fékk verstu seðlabankastöðu meðal vestrænna þjóða

Fyrirsögn norsku vefsíðunnar e24.no á umfjöllun um fyrsta blaðamannafund Sven Harald Öygard nýs seðlabankastjóra er „Fékk verstu seðlabankastöðu meðal vestrænna þjóða". Er þar átt við að erfiðleikarnir sem Sven Harald kemur til með að glíma við virðast nær óyfirstíganlegir.

En Norðmenn eru greinilega stoltir af því að þeirra maður hafi fengið verkefnið og það er samdóma álit norskra fjölmiðla að Sven Harald sé rétti maðurinn í stöðuna.

Sjálfur sagði Sven Harald á blaðamannafundinum að hann tæki við verkefninu af mikilli auðmýkt og að fyrir hagfræðing væri um mjög krefjandi starf að ræða.

Þá kemur fram á e24.no að Sven Harald hafi sagt upp stöðu sinni hjá McKinsey eftir fimmtán ára starf hjá því félagi og er því ekki í starfsleyfi meðan hann sinnir seðlabankastjórastarfinu til bráðabirgða.

Sven Harald benti á þrjú jákvæð atriði sem munu hjálpa til við að endurreisa efnahag Íslands. Í fyrsta lagi var ríkissjóður rekinn með afgangi fyrir kreppuna, í öðru lagi er íslenskt vinnuafl mjög vel menntað og í þriðja lagi eru Íslendingar vanir að vinna mikið og sýna samstöðu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×