Viðskipti innlent

Verði krafan samþykkt rennur hún til velferðamála

Fyrrum framkvæmdarstjóri Landsbankans, Yngvi Örn Kristinsson, hefur gefið út yfirlýsingu vegna launakröfu sem hann og fleiri fyrrum starfsmenn Landsbankans hafa gert í þrotabú Landsbankans. Hann gerir 229 milljón króna kröfu í þrotabúið.

Í yfirlýsingunni segir hann að það sé ljóst að ríkissjóðir Bretlands og Hollands muni fá um helming af eignum bankans.

„Falli ég og aðrir fyrrverandi starfsmenn frá okkar kröfum mun því helmingur þeirra renna til Breta og Hollendinga. Ég hef ekki áhuga á að styrkja þær þjóðir frekar en orðið er," segir í yfirlýsingunni.

Þá segir í lokin að Yngvar hyggist gefa kröfu sína til velferðamála verði hún samþykkt.

Hér fyrir neðan má lesa yfirlýsinguna í heild sinni:

Yfirlýsing frá Yngva Erni Kristinssyni

Mikil umræða hefur spunnist um kröfur mínar og annarra fyrrverandi starfsmanna Landsbankans í þrotabú Landsbanka Íslands hf. Um er að ræða lögvarðar kröfur samkvæmt ráðningar-samningnum og eru þær aðallega til komnar vegna kauprétta sem voru í vanskilum af hálfu bankans frá árinu 2007. Óvíst er hvort þær verða samþykktar.

Ljóst er að ríkissjóðir Bretalands og Hollands munu fá um helming af eignum þrotabús Landsbankans. Falli ég og aðrir fyrrverandi starfsmenn frá okkar kröfum mun því helmingur þeirra renna til Breta og Hollendinga. Ég hef ekki áhuga á að styrkja þær þjóðir frekar en orðið er. Þá er ljóst að um helmingur af kröfum starfsmanna, verði þær samþykktar, munu renna til ríkissjóðs vegna tekjuskatta og enn meira ef tekið er tillit til óbeinna skatta. Ísland og íslenska ríkið mun því ekki skaðast af kröfum mínum í þrotabúið.

Sjálfur hef ég ákveðið að komi til þess að kröfur mínar verði samþykktar af þrotabúinu renni þær, að frádregnum sköttum, til velferðarmála.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×