Viðskipti innlent

Telur talsverðan áhuga á leið Seðlabankans

Greining Íslandsbanka telur líklegt er að talsverður áhugi muni reynast af hálfu íslenskra fyrirtækja á þeirri leið sem Seðlabankinn auglýsti í morgun og snýr að því að skipta út krónu/ríkisbréfum í eigu erlendra aðila í langtímalán hjá þeim fyrirtækjum sem hafa tekjur í erlendri mynt.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningarinnar. Þar segir að þessi leið henti vel fyrirtækjum sem hyggjast ráðast í fjárfestingar á næstunni innanlands sem hafa í för með sér umtalsverðan krónukostnað en skila í kjölfarið gjaldeyristekjum.

Væntanlegt álver í Helguvík og orkuöflun því tengd gæti verið dæmi um slíkt. Meiri óvissa ríkir um framboð af lánsfé í þennan farveg. Þeir erlendu aðilar sem eiga krónueignir hérlendis virðast margir kjósa að halda þeim í seljanlegum skammtímaeignum eða innistæðum, og gætu því verið tregir til að festa endurgreiðsluferil þeirra fjármuna til langs tíma.

Hins vegar er ekki loku fyrir skotið að aðrir, þolinmóðari fjárfestar vildu nýta sér þessa leið til langtímafjárfestinga á Íslandi og myndu þeir þá væntanlega kaupa krónueignir af skammtímafjárfestum á erlendum markaði til þess arna.

Gengi krónu á erlendum markaði hefur hækkað talsvert gagnvart evru undanfarið, sem gæti verið til marks um slíka þróun. Kostar evran nú 208 kr. í miðlarakerfi Reuters, sem er lægsta verð evrunnar í krónum frá því fyrir miðjan mars síðastliðinn.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×