Viðskipti innlent

Rúmlega 19 milljarða viðsnúningur hjá Íslandssjóðum

Tap fært á hlutdeildarskírteini eigenda Verðbréfa- og Fjárfestingarsjóða Íslandssjóða var 68 milljónir kr. árið 2008 samanborið við hagnað upp á 19.3 milljarða kr. árið 2007. Þarna er því um rúmlega 19 milljarða kr. viðsnúning til hins verra hjá sjóðunum.

Stjórn Íslandssjóða hf. (áður Glitnis Sjóða), sem rekur Verðbréfasjóði, Fjárfestingarsjóði og Fagfjárfestasjóði hefur staðfest ársreikning félagsins fyrir árið 2008.

Fjármunir sjóða í stýringu Íslandssjóða hf. námu 133 milljörðum kr. í lok ársins samanborið við 238 milljarða kr. í árslok 2007, drógust því eignir í stýringu saman um 44,2% á árinu 2008.

Í tilkynningu segir að hreinar rekstrartekjur námu 2.004 milljónum kr. samanborið við 1.937 milljónir kr. árið áður, jukust um 3,5%. Rekstrargjöld námu 1.215 milljónum kr. samanborið við 1.599 milljónir kr. árið áður.

Heildareignir félagsins námu 2.470 milljónum kr. í árslok en voru 764 milljónir kr. í ársbyrjun. Eigið fé í árslok 2008 nam 1.031 milljónir kr. en var 358 milljónir kr. í ársbyrjun.

Eiginfjárhlutfall félagsins, sem reiknað er samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, var 107,7% í árslok 2008 en þetta hlutfall má ekki vera lægra en 8,0%.

Hagnaður rekstrarfélagsins eftir skatta árið 2008 nam 673,3 milljónum kr. samanborið við 275,2 milljónir kr. árið 2007. Neikvæð ávöxtun var hjá tveimur Verðbréfasjóðum, þ.e. Sjóði 1 sem er fyrirtækjaskuldabréfasjóður og Sjóði 6 sem er hlutabréfasjóður og einum Fjárfestingarsjóði, Sjóði 10 sem er hlutabréfasjóður.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×