Viðskipti innlent

Gjaldeyrisveltan eykst töluvert á millibankamarkaði

Velta á millibankamarkaði með gjaldeyri var 380 milljónir króna að jafnaði á dag í september eða 2,1 milljón evra. Er það mesta dagsvelta sem verið hefur á þessum markaði frá því að hann var myndaður á ný eftir hrun banka.

 

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að hlutdeild Seðlabankans í veltunni hafi einnig verið að minnka, en í september greip bankinn einungis tvisvar sinnum inn í markaðinn og keypti krónur fyrir 3 milljónir evra. Í ágúst greip bankinn hins vegar 6 sinnum inn í markaðinn með samtals kaupum á krónum fyrir 6,75 m. evra.



Í ágúst stækkaði Seðlabankinn hvert inngrip um helming og fór með það úr 250 þús. evrum á hvern aðila millibankamarkaðar í 500 þús. evrur. Jók það áhrifamátt hvers inngrips. Á sama tíma voru stækkuð hver viðskipti sem aðilar að millibankamarkaðinum áttu en aðilar þessir eru viðskiptabankarnir þrír, Íslandsbanki, Landsbanki og Kaupþing. Er þetta ein ástæða þess af hverju veltan á markaðinum hefur aukist en fjöldi viðskipta hefur lítið breyst frá fyrri mánuðum.



Þó svo að umtalsvert hafi dregið úr inngripum Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði undanfarið hefur gengi krónunnar haldist nokkuð stöðugt. Afgangurinn á vöruskiptajöfnuði í september var nokkuð minni en síðustu mánuði og á sama tíma hefur líklegast einnig dregið úr afganginum á þjónustujöfnuði vegna minni tekna af erlendum ferðamönnum.

 

„Það er því styrkleikamerki að þrátt fyrir þetta hafi krónan ekki lækkað um meiri en ríflega eitt prósent yfir mánuðinn. Í lok september var miðgildi evrunnar 181,6 krónur en í lok ágúst var það 179,4 krónur," segir í Morgunkorninu.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×