Skoðun

Leitin að sökudólgnum

Nú þegar fjármálakreppan virðist ekki jafn ógnvænleg (í bili að minnsta kosti) og sérfræðingar þykjast vera farnir að greina „græna sprota" endurreisnarinnar, færist aukinn kraftur í leitina að sökudólgum. Fjármálakreppan færir okkur að því er virðist ótakmörkuð tækifæri til að afhjúpa svik, misgjörðir og spillingu. En það liggur ekki alveg ljóst fyrir hverja og hvað á að afhjúpa.

Forystusauðirnir í bankageiranum voru upphaflega augljósasti sökudólgurinn. Þeir réðu yfir stofnunum sem rökuðu inn háum fjárhæðum á tilteknu tímabili með bjagaðri verðlagningu á áhættu og reyndu að sækja sér stuðning almennings á þeim forsendum að þeir væru of stórir til að falla. Þeir virtust hrokafullir og oflaunaðir og auðvelt að gera grýlu úr þeim.

En hvað um pólitíska sviðið? Hvers vegna var ekki meira taumhald og betra eftirlit með bönkunum? Stjórnmálamenn voru ekki „keyptir" í einföldum skilningi þess orðs; þeir frekar sannfærðu sjálfa sig um að nýstárlegir fjármálagjörningar væru vísir að almennri hagsæld, skaffaði fleirum þak yfir höfuðið og auðvitað þeim sjálfum auknu fylgi í kosningum.

Hið reglulega bakslag

Næstum allstaðar eiga stjórnvöld erfitt uppdráttar og stjórnmálamenn undir högg að sækja. Ríkisstjórnir hafa riðað til falls í Tékklandi, Ungverjalandi, á Íslandi og Írlandi. Uppþot og verkföll hafa lamað Taíland, Frakkland og Grikkland. Ríkisstjórnin í Kúveit setti þingið af.

Bretland nötrar útaf hneykslismálum, sem eiga sér ekki sinn líka frá því á 19. öld.

Gagnásakanir í kjölfar efnahagshruns eiga sér langa sögu og endurtaka sig með reglulegu millibili. Mikill uppgangur í verðbréfaviðskiptum snemma á 8. áratug 19. aldar endaði með hruni árið 1873 og nornaveiðum á þeim sem báru ábyrgð.

Árið 1907 var J.P. Morgan í fyrstu álitinn bjargvættur markaðarins en í næstu andrá óvinur almannahagsmuna. Á 4. áratug 20. aldar var skuldinni skellt á bankamenn og fjármálaráðherra. En það sem eftir lifði af 20. öldinni virtist sem hið reglulega bakslag í efnahagslífið væri á bak og burt.



Síður ástæða til að forðast mistök

Nú til dags eru ásakanir ekki bundnar við stjórnmála- og fjármálasviðið. Gagnrýnendur reyna líka að koma auga á hugmyndir og hagsmuni sem stuðluðu að hinum efnahagslegu óförum. Að þessu leyti er kreppan sem nú gengur yfir ólík forverum sínum; nú virðist sem hin fjárhagslega nýjungagirni hafi verið keyrð áfram af hugmyndafræðilegum og tæknilegum nýjungum.

Þar sem um fjármálakreppu er að ræða beina flestir í leit að hugmyndafræðilegum rótum hennar sjónum sínum að hagfræðingum, sem virðast, með nokkrum undantekningum, sérlega rúnir trausti. Endalaust er vitnað í orð sem Robert Lucas, höfundur kenningarinnar um hagsýnisvæntingar, á að hafa látið falla árið 2003 í forsetaávarpi sínu á fundi Bandaríska hagfræðifélagsins (American Economy Association), á þá leið að fundist hefði hagnýt lausn á grundvallarvandanum við að fyrirbyggja fjármálakreppur.

Það liggur líka ljóst fyrir að akademískir hagfræðingar höfðu áhrif á stefnumörkun. Larry Summers, núverandi forstöðumaður efnahagsráðs Obama Bandaríkjaforseta, komst að þeirri niðurstöðu þegar hann var ungur hagfræðingur að „áföll á sviði fjármála og peningastefnu hafa minni áhrif á upptök kreppu en við gerðum ráð fyrir". Ef hagkerfið var pottþétt og til voru margir góðir kostir til að takast á við kreppu og samdrátt, var síður ástæða til að forðast mistök. Það var alltaf hægt að laga hlutina eftir á.

Áhrif póstmódernismans

Fulltrúar annarra fræðigreina hafa glott drýldnislega yfir opinberri niðurlægingu kollega sinna í hagfræði. Fræðigreinar sem styðjast ekki við stærðfræði virðast hafa náð fram hefndum, þar sem ógöngurnar sem tröllatrú á flókin táknkerfi og torræðar formúlur hefur leitt hagkerfið í koma sífellt betur í ljós.

Það er hins vegar svo að straumar og stefnur í öðrum fræðigreinum, sem og út í samfélaginu, að minnsta kosti stuðluðu að fáránlegri áhættusækni, ásamt vilja til að búa til og meðtaka virðismat á fjármálagjörningum, sem voru svo flóknir að ekki nokkur leið var að skilja þá. Hið almenna samfélagsástand er stundum kennt við póstmódernisma, sem felur í sér að rökhyggju er skipt út fyrir innsæi, tilfinningu og vísanir.

En sjálfur póstmódernisminn er sprottinn upp úr tækni sem hann á í margræðu sambandi við. Ólíkt gangvirkinu í gömlu gufuvélunum og fyrstu bílunum sem var auðvelt að skilja, eru nútímabílar og flugvélar orðin svo flókin að þeir sem stýra þeim hafa ekki hugmynd um hvernig tæknin sem knýr tækin áfram virkar. Internetið hefur búið til veröld þar sem skýr rökhugsun hefur vikið fyrir hliðskipun áberandi mynda.

Póstmódernisminn stígur burt frá rökrænni menningu þess tíma sem kenndur var við „módernisma". Margir koma auga á sífellt fleiri hliðstæður við lífið á miðöldum, þar sem fólk hrærðist í atburðum og ferlum sem það skildi ekki. Fyrir vikið fékk það á tilfinninguna að það lifði í veröld þar sem púkar og yfirnáttúrlegar verur byggju líka.

Hruninn heimur@Megin-Ol Idag 8,3p :Hið nýlega tímabil alþjóðafjármála (kannski heyrir það fortíðinni til?) var ólíkt fjármálabylgjunni fyrir einni öld. Menningarlegar birtingarmyndir þess virkuðu líka frumlegar; gáskafullar, tilvísanahlaðnar og á jaðrinum - í einu orði sagt: póstmódernískar. Á þessu tímabili var ekki litið á hefðir og fortíðina sem fjötra, heldur sem uppsprettu írónískra vísana. Á hápunkti tímabilsins sönkuðu margir stórlaxar að sér rándýrri abstrakt list. Póstmódernísk vanræksla eða andúð í garð raunveruleikans bjó til þá tilfinningu að heimurinn væri síbreytilegur og sveigjanlegur, jafnvel álíka skammgóður og merkingarsnauður og verðmæti hlutabréfa.

Til varð bandalag fjármálasérfræðinga, sem töldu sig vera að selja nýjar hugmyndir, pólitískrar elítu sem studdi lágmarksregluverk, og menningarástands sem aðhylltist tilraunamennsku og hafnaði hefðbundnum gildum. Niðurstaðan varð sú að öll gildi - þar á meðal í fjármálaheiminum - voru álitin handahófskennd og í rauninni fáránleg.

Það kemur ekki á óvart að þegar skilningsleysi hættir að leiða af sér hagsæld, en fer þess í stað að valda efnahagshruni og upplausn, breytist það í reiði. Leitin að sökudólgnum minnir sífellt meir á nornaveiðarnar seint á miðöldum: þetta er leið til að láta sundurlausa og fjandsamlega veröld koma heim og saman.

Harold James er prófessor í sagnfræði og alþjóðamálum við Princeton-háskóla. ©Project Syndicate. (Millifyrirsagnir eru Fréttablaðsins.)






Skoðun

Sjá meira


×