Viðskipti innlent

Már: Telur að kreppunni ljúki á fyrri helming næsta árs

Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri telur að Íslandi muni sigla út úr kreppunni á fyrri helmingi næsta árs. Þetta kemur fram í viðtali Reuters við Má sem nú er staddur í heimsókn í BIS bankanum í Basel í Sviss þar sem hann starfaði áður. Þar stendur yfir fundur seðlabankastjóra í heiminum.

Í viðtalinu segir Már m.a. að nýjustu tölur um þjóðarframleiðslu séu betri en menn áttu von á að þær yrðu og jafnframt að merkja megi aukna bjartsýni á framtíðinni meðal Íslendinga. Kreppan á Íslandi stefni því í að verða grynnri en spáð var.

Aðspurður um verðbólgu og stýrivexti segir Már m.a. að Seðlabankinn sé reiðubúinn til að hækka stýrivexti sína ef þörf krefur. Hann á hinsvegar von á að þeir verði frekar lækkaðir en hækkaðir á næstu mánuðum eftir því sem dregur úr verðbólgu.

Már er einnig inntur eftir samskiptunum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og segir að búast megi við endurskoðun sjóðsins síðar í þessum mánuði eða í október. Eins og kunnugt er af fréttum í morgun hefur sjóðurinn sett endurskoðunina á dagskrá hjá sér þann 14. september. Endurskoðunin sé lykilatriði til að efla traust á íslensku efnahagslífi en Ísland þurfi ekki nauðsynlega á lánsfé að halda núna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×