Viðskipti innlent

Raunlækkun íbúðaverðs er 20% undanfarna 12 mánuði

Undanfarna 12 mánuði hefur íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkað um 5,3% að nafnvirði og rúmlega 20% að raunvirði. Íbúðir í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hafa nú lækkað um 5,5% undanfarna 12 mánuði og íbúðir í einbýli lítið minna eða um 4,3%.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu en Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,6% á milli janúar og febrúar samkvæmt upplýsingum sem Fasteignaskrá Íslands birti í gær.

Samkvæmt mælingum Hagstofunnar lækkaði íbúðaverð á landinu öllu um 3% í febrúar frá fyrri mánuði og hefur húsnæðisverð samkvæmt þeirri mælingu lækkað um 6,2% undanfarna 12 mánuði.

Að mörgu er að huga þegar hinar gjörbreyttu ytri aðstæður íbúðarmarkaðarins eru skoðaðar um þessar mundir. Brottflutningur erlends vinnuafls er þar á meðal. Vegna gjörbreyttra efnahagsaðstæðna hér á landi hafa 7.000 erlendir ríkisborgarar þegar yfirgefið landið frá miðju síðustu ári samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar.

Að meðaltali búa 2,6 íbúar í hverri íbúð hér á landi sem samsvarar því að alls hafa 2.700 íbúðir sem áður voru í eigu eða leigu þessara erlendu ríkisborgara losnað síðan þá.

Jafnvel þó gert sé ráð fyrir að erlendu ríkisborgararnir hafi búið fleiri saman en þetta meðaltal gefur til kynna eða allt að 4 saman í íbúð samsvarar það því að 1.750 íbúðir sem áður voru heimkynni erlendu ríkisborgaranna hafi nú losnað.

Miðað við að árleg íbúðaþörf miðað við fólksfjölgun sé 1.800 íbúðir á ári er ljóst að um verulegan fjölda íbúða er að ræða.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×