Viðskipti innlent

Kauphöllin áminnir og sektar Landic Property

Kauphöllin hefur ákveðið að áminna Landic Property opinberlega og sekta félagið um 1,5 milljón kr. Er þetta gert þar sem Landic er talið hafa brotið gegn ákvæðum reglna fyrir útgefendur fjármálagerninga í kauphöllinni.

Í tilkynningu frá kauphöllinni um málið kemur fram að forsaga málsins er sú að þann 9. janúar s.l. birti Landic tilkynningu um að félagið ætti í viðræðum við kröfuhafa sína. Meðal annars var rætt um samning sem Landic væri að gera við eigendur skuldabréfaflokks um frestun á vaxtagreiðslum til 6. mars en þær voru á gjalddaga 6. desember í fyrra.

Sama dag og Landic tilkynnti um þessar viðræður setti kauphöllin alla skuldabréfaflokka Landic á athugunarlista og óskaði skýringa á því afhverju Landic tilkynnti ekki um dráttinn á vaxtagreiðslunum á fyrrgreindum skuldabréfaflokki.

Landic svaraði því til að álit félagsins var að það þjónaði ekki hagsmunum þess og hluthafa að senda tilkynningu í desember þar sem óvíst hefði verið hvort fjármögnun fengist til að hægt væri að standa við greiðslu á skuldabréfaflokknum.

Í úrskurði kauphallarinnar segir: „Það leysir útgefanda ekki undan upplýsingaskyldu að upplýsa einungis eigendur útgefinna verðbréfa um fjárhagsörðugleika og vanskil á greiðslum. Með slíkri valkvæðri upplýsingagjöf til afmarkaðs hóps fjárfesta er verið að brjóta gegn jafnræði aðila á markaði um aðgang að upplýsingum sem kunna að hafa marktæk áhrif á markaðsverð verðbréfa ..."

Ennfremur segir að ljóst er að Landic birti umræddar upplýsingar fyrst opinberlega rúmum fjórum vikum eftir greiðslufall fyrrgreinds skuldabréfaflokks. Með því brást útgefandi skyldum sínum til að birta upplýsingarnar opinberlega eins fljótt og unnt er í samræmi við reglur Kauphallarinnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×