Viðskipti innlent

Opal inn í félag í Lúx

Björgólfur Thor Björgólfsson.
Björgólfur Thor Björgólfsson.

Félagið Opal Global Invest, sem skráð var á eyjunni Tortola rann saman við Sambson Global Holding sem skráð er í Lúxemborg árið 2004. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Björgólfsfeðgum en skiptastjóri í þrotabúi Samsonar ehf segir í skýrslu frá því í febrúar að ekki hafi verið gerð grein fyrir hátt í sexhundruð milljóna króna greiðslu vegna Opal Global. Fram kemur í skýrslu um þrotabú Samsonar, félags Björgólfsfeðga, að erfitt hafi verið að nálgast upplýsingar um sumar greiðslur sem fóru út úr Samson og þá sem þær hafi þegið.

Enda séu í sumum tilvikum rýrar upplýsingar í bókhaldi. Meðal þess sem nefnt er í skýrslunni er 580 milljóna króna greiðsla til félags sem heitir Opal Global Invest og er kennt við eyjuna Tortola - alræmt skattaskjól. Þess má geta að skýrslan um þrotabúið er meira en mánaðargömul.

Fram kemur í yfirlýsingu frá Björgólfsfeðgum að eftir að skýrslan var kynnt kröfuhöfum hafi fulltrúar Samson rætt við þrotabústjóra og varpað ljósi á ýmis mál. Í yfirlýsingunni segir að ekki sé rétt að Samson hafi greitt 580 milljónir til Tortólufélagsins heldur hafi Samson lánað Opal Global árið 2004. Félagið hafi síðan sama ár runnið saman við annað félag feðganna, Samson Global Holding sem sé skráð í Lúxemborg.

Fram kemur í yfirlýsingunni að enginn fótur sé fyrir ályktunum þess efnis að fjármunum Samson ehf hafi verið komið undan eða í skjól eða felur eða runnið til eigenda félagsins. Í öllum tilfellum hafi verið um að ræða fjárfestingar eða viðskiptalán vegna fjárfestinga í nýjum verkefnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×