Lífið

Dönum vel við Stefán Mána

Gyldendal hefur tryggt sér útgáfuréttinn að bókinni Ódáðahraun eftir Stefán Mána.
Fréttablaðið/stefán
Gyldendal hefur tryggt sér útgáfuréttinn að bókinni Ódáðahraun eftir Stefán Mána. Fréttablaðið/stefán

„Ég veit ekkert af hverju Dönum er svona vel við mig, þeir eru bara yndislegir og það fer bara vel á með okkur,“ segir Stefán Máni rithöfundur.

Danskir unnendur glæpasagna virðast hafa bundist íslenska rithöfundinum Stefáni Mána sérstökum tryggðarböndum því danska forlagið Gyldendal hefur nú samið við rithöfundinn um útgáfu á bókinni Ódáðahraun sem kom út í fyrra. Gyldendal gaf einnig út spennusöguna Skipið sem vakti mikla athygli og fékk prýðilega dóma í dönskum fjölmiðlum. Gyldendal ákvað í kjölfarið á velgengni Skipsins að gefa út hljóðbók, slík var eftirsóknin. „Ég veit ekkert hver er að lesa þetta. Kannski sem betur fer. Því einu dönsku leikararnir sem ég þekki eru Casper Christiansen og Frank Kvam úr Klovn. Og það hefði kannski ekkert komið neitt sérstaklega vel út.“

Stefán tekur þátt í hinu árlega jólabókaflóði sem nú er skammt undan og er bara að bíða eftir því að bókin fari í prentun. Um er að ræða spennusögu sem segir þó hvorki af glæpamanni né undirheimum. „Nei, hún heitir Hyldýpið, er svona reykvísk saga, segir frá tvítugum strák frá Ísafirði sem flytur á mölina. Sjónarhornið er venjulegur strákur sem lendir í óvenjulegum hlutum,“ segir Stefán og tekur skýrt fram að Hyldýpið sé laust undan oki hrunsins, það er að segja bankahrunsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×